Einar Ágúst hrærður eftir helgina: „Lífið gefur endalaust“

Tónlistarmaðurinn Einar Ágúst Víðisson, sem gerði garðinn frægan með Skítamóral, er þakklátur þessa dagana. Einar segir frá skemmtilegu atviki á Facebook-síðu sinni þar sem hann segir frá fermingu ungs drengs sem fermdist einn um helgina úti á landi.

Lífið gefur endalaust. Um helgina fermdist ungur drengur úti á landi, einn, því hann vildi hafa allt fólkið sitt hjá sér sem komst bara líðandi helgi. Blessað barnið valdi ‘Fljúgum áfram’ sem útgangspunkt í fermingunni sinni og fékk ég sent myndband frá athöfninni,“ segir Einar Ágúst sem var vægast sagt hrærður eftir að hafa fengið spurnir af þessu.

„Þetta er það fallegasta sem ég hef á ævinni séð fyrir utan drengina mína og heiðurinn er yfirþyrmandi,“ segir Einar sem heldur áfram:

„Já krakkar mínir. Það þurfa ekki að vera stórtónleikar eða sæti á vinsældalistum, yfir 200 milljónir manna að horfa á mann í Júróvisjon eða gull og platínuplötur sem þetta snýst um. Ég er algjörlega blown away! Ég beygi höfuð í þakklæti og virðingu því ekkert er sjálfgefið í lífinu. Ég þakka Guði og þessum góða pilti og öllu hans fólki,“ segir Einar sem endar færsluna með þessum orðum:

„Hér er svo þetta blessaða hnoð okkar Hebba Viðars frá árinu 1999. Megi þessi ungi maður fara að vilja og vegferð Krists í sínu lífi, þess óska ég af öllu hjarta. Alláh-u-Abhá!“