Eiður Smári grunaður um ölvunarakstur – Starfið hangir á bláþræði

Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari meistaraflokks FH í fótbolta og einn besti knattspyrnumaður Íslands frá upphafi, er sagður hafa verið tekinn fyrir ölvunarakstur í fyrradag.

Fréttablaðið og Vísir greina meðal annars frá þessu.

Heimildir Fréttablaðsins herma að æðstu stjórnendur Fimleikafélagsins hafi nú í morgunsárið rætt alvarlega stöðu félagsins og hvort þjálfari liðsins þurfi að víkja. Í frétt Vísis kemur fram að Eiður hafi nýlega verið „tekinn drukkinn“ undir stýri.

Eiður Smári tók við FH-liðinu í júní í sumar en undir hans stjórn endaði FH í fallsæti Bestu deildarinnar áður en úrslitakeppnin hófst. FH tapaði fyrir ÍBV í gær og er enn í fallsæti þegar fjórir leikir eru eftir.