Egypska fjölskyldan fór ekki úr landi í morgun – Vita ekki hvar hún er

16. september 2020
10:06
Fréttir & pistlar

„Ekki var unnt að framkvæma frávísun egypskrar fjölskyldu frá landinu sem fara átti fram í morgun,“ segir í tilkynningu frá stoðdeild ríkislögreglustjóra vegna brottvísunar egypsku fjölskyldunnar sem fara átti fram í morgun. Mjög hefur verið deilt um málið enda varðar málið hjón með fjögur ung börn sem hafa komið sér vel fyrir hér á landi.

„Fólkið var ekki á fyrirfram ákveðnum stað þar stoðdeild hugðist fylgja þeim úr landi. Ekki er vitað um dvalarstað fólksins. Málið er áfram á borði stoðdeildar ríkislögreglustjóra. Ekki er verða veittar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu,“ segir í tilkynningu sem embætti ríkislögreglustjóra sendi frá sér.

Magnús D. Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að slökkt hefði verið á síma fjölskyldunnar í morgun. Sagðist hann ekki eiga von á öðru en að fjölskyldan yrði send úr landi nú í morgun. Til stóð að hún héldi til Amsterdam og þaðan til Kaíró í Egyptalandi.