Egill klórar sér í kollinum yfir hrekkja­vökunni á Ís­landi

30. október 2020
19:11
Fréttir & pistlar

„Í dag byrjaði for­sætis­ráð­herra blaða­manna­fund ríkis­stjórnarinnar á því að tala um hrekkja­vöku – eins og lífið lægi við,“ segir fjöl­miðla­maðurinn Egill Helga­son á Face­book-síðu sinni.

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni hér á landi að hrekkja­vakan er á næsta leiti, en haldið er upp á hana annað kvöld, síðasta dag októ­ber­mánaðar.

Hrekkja­vöku­há­tíðin hefur náð fót­festu hér á landi á undan­förnum árum og veltir Egill þessu æði fyrir sér. „Hvað er með hrekkja­vöku­æðið? Hve­nær greip þetta um sig svona rosa­lega? Sonur minn er 18 ára og þegar hann var í grunn­skóla var af­skap­lega lítið til­stand á hrekkja­vöku,“ segir hann.

Egill tekur fram að hann sé ekkert sér­stak­lega að kvarta undan þessu, en það veki ó­neitan­lega at­hygli hversu stór þessi dagur hefur orðið á undan­förnum árum.

Það er skemmst frá því að segja að margir leggja orð í belg undir færslu Egils, en í þeim hópi er sagn­fræðingurinn Guð­jón Frið­riks­son sem lagðist í smá rann­sóknar­vinnu.

„Ef leitað er að orðinu hrekkja­vaka á tima­rit.is, kemur í ljós að hún er fyrst nefnd sem við­burður á skemmti­stöðum í Reykja­vík 1991 og síðar. Eftir 2000 verður svo hrekkja­vaka við­fangs­efni í vin­sælum banda­rískum kvik­myndum sem greini­lega hefur smitað út frá sér meðal krakka. Árið 2004 gekk rúmur tugur krakka í búningum milli húsa í Laugar­nes­hverfi og hótaði hrekkjum ef þau fengju ekki sæl­gæti. Næstu ár varð þetta smám saman að hálf­gerðu æði,“ segir hann.

Þá bendir kona ein á það undir færslu Egils að skemmti­legum dögum sé dá­lítið mis­skipt yfir árið. Á vorin sé ara­grúi af frí­dögum en á haustin séu fá tæki­færi til að gera sér daga­mun. Hrekkja­vakan sé góð til að fylla upp í þá þörf og því ekkert nema gott um hana að segja.