Egill Helgason veltir því fyrir sér hvort flugfélögin ráði ferðinni

Egill Helgason spyr hvort að flugfélögin séu farin að ráða ferðinni eftir tíðindi dagsins á Facebook-síðu sinni. Tilkynnt var á upplýsingafundi almannavarna í dag að farþegar frá Þýskalandi, Damörku, Finn­landi og Noregi verði nú undanskyldir sýnatöku við komuna til landsins. Talsverð umræða myndaðist í kringum þetta og voru ekki allir á sama máli hvers vegna þessi ákvörðun hafi verið tekin.

„Svörin voru þau að farþegar til landsins væru fleiri en búist var við, þess vegna þyrfti að hafa þetta svona. Svo voru vandræðaleg svör um hvort væri hægt að hefta strauminn. Hver stjórnar þá? Varðandi dómsdagsspár þá eigum við að hætta að einblína á ferðamennsku og spyrja hvort og hvernig líf geti verið með eðlilegum hætti hér í haust og vetur þegar allar líkur eru á að veikin blossi upp aftur," segir Egill.

Sigursteinn Másson var ekki á sammála og telur þetta vera eðlileg þróun.

„Þetta er skynsamlegt og vel rökstutt skref. Í hvert sinn sem Þórólfur kemur með tillögur sem nota bene allar hafa reynst heillavænlegar þá rísa menn upp með dómsdagsspár og röfl um óeðlilegan þrýsting og hafa hingað til alltaf haft rangt fyrir sér."

Egill bendir á að víða sé veiran að blossa upp aftur og staðan í löndum sem hafi slakað mikið á versnað.

„Ástralir voru komnir í næstum núll. Nú eru víðtækar lokanir þar. Grikkir eru orðnir mjög áhyggjufullir út af fjölgun smita, þeir sluppu mjög vel. Það þýðir ekki að horfa á þetta bara frá viku til viku, þetta er langur spotti. Upp úr miðjum ágúst opna háskólar og framhaldsskólar - ná þeir að starfa óhindrað í vetur?."

Kristján B. Jónasson telur þetta vera hysteríu og tekur þar sem dæmi Þýskaland þar sem aðeins 159 tilfelli voru greind í fyrradag í 80 milljóna manna landi.

„Málið er að þetta er fait accompli, orðinn hlutur, hjá flugfélögunum. Farþegar miklu fleiri en búist var við og við verðum að gjöra svo vel að taka því," segir Egill.