Egill furðar sig á því að Dagur hafi fengið boð í bólusetningu

Egill Helgason, sjónvarpsmaður og samfélagsrýnir, segir að það virki eins og dálítið skipulagsleysi að boða fólk í bólusetningu sem hefur í raun ekkert með það að gera.

Tilefnið er færsla Dags B. Eggertssonar borgarstjóra þess efnis að hann hafi á föstudag fengið boð um að mæta í bólusetningu í morgun. Þegar betur var að gáð hafði Dagur fengið boðið í ljósi þess að hann er læknismenntaður en eins og kunnugt er hefur Dagur lítið fengist við læknastörf á undanförnum árum enda verið á fullu í borgarmálunum fyrir Samfylkinguna.

Eins og Hringbraut fjallaði um í morgun hafnaði Dagur þessu boði en hann ætlar hins vegar að þiggja bólusetningu þegar röðin kemur að honum – eins og vonandi flestir.

Egill segir í færslu á Facebook-síðu sinni í dag: „Þetta virkar eins og dálítið skipulagsleysi, að boða fólk sem lærði eitthvað sem tengist heilbrigðismálum (og það er fjöldamargt) og bólusetja það alveg burtséð frá því við hvað það starfar. Dagur gerir rétt í því að hafna.“

Einn bendir Agli á að hugsanlega sé stuðst við læknafélagslista en ekki lista yfir starfandi lækna. Egill svarar því til að þá þurfi einfaldlega mannafla til að fara yfir svona lista og athuga hverjir eru starfandi læknar og hverjir ekki.

„Þetta er ekki bara spurning um lækna heldur mikinn fjölda fólks sem hefur tengsl við heilbrigðis- og velferðargeirann. Kannski erfitt að draga línu milli þeirra sem eru starfandi eða eru það ekki - en ætti nú samt að vera gerlegt.“