Efuðust um að Ás­geir gæti gegnt em­bætti seðla­banka­stjóra því hann stamaði

23. október 2020
13:11
Fréttir & pistlar

„Sumir voru að gefa í skyn að af því að ég stamaði gæti ég ekki gengt þessu em­bætti. Ég skildi það aldrei alveg, hvort það snerist um að ég gæti ekki tjáð mig al­menni­lega eða hvort stamið væri hluti af því hversu mikill fá­viti ég væri,“ sagði Ás­geir Jóns­son seðla­banka­stjóri í Síð­degis­út­varpinu á Rás 2 í gær. Fjallað er um viðtalið á vef RÚV.

Í gær, 22. októ­ber, var dagur stams en deginum er meðal annars ætlað að vekja fólk til vitundar um stam, auka fræðslu og um­ræðu um það og á­hrif þess á fólk.

Ás­geir stamaði sem barn en eftir þrot­lausa þjálfun tókst honum að læra tækni sem gerði honum kleift að ráða betur við það. Í við­talinu kom fram að hann ætti það enn til að stama en það gerðist helst ef hann væri þreyttur, stressaður eða illa fyrir kallaður. „Þá fer tæknin að brotna niður,“ sagði hann.

Ás­geiri var strítt þegar hann var barn og segir hann að full­orðnir hafi líka tekið þátt í stríðninni.

„Ég hef lent í því, sér­stak­lega þegar ég var að byrja ferilinn að eldri mönnum fannst þetta fyndið. Auð­vitað situr þetta í manni.“

Í við­talinu kom einnig fram að Ás­geir telji mikil­vægt að börn sem stama í dag átti sig á að það er hægt að vinna bug á því og gera það við­ráðan­legt. „Þú getur unnið á þessu og þú getur náð árangri í því sem þú vilt. Vonandi eru það þau skila­boð sem ég get sent.“