Edda reiddist - Fékk ó­þægi­legt sím­tal frá „hyski“: „Hlustaði á þá rudda­legustu sví­virðingaromsu sem ég hef heyrt um ævina“

„Jæja Co­vid teymið gaf grænt ljós - ég hætti að loka mig inni í litla fal­lega sumar­húsinu í sveitinni og komst í sjálf­boða­liða­starfið sem ég var búin að skrá mig í. Alveg á hár­réttum tíma. Ég var farin að mis­þyrma öllu laus­legu í bú­staðnum - sér­stak­lega heilsu­fæðinu. Lenti að lokum í heift­úðugu rifrildi við sófann, borð­stofu­borðið og litla horn­borðið í stofunni. Djö.... besserwisserar!
Þá var runnin upp rétta stundin til að færa sig úr ein­angruninni.“

Þetta segir leikkonan Edda Björg­vins­dóttir sem nú hefur tekið til starfa á hjúkrunar­heimilinu til að leggja sitt að mörkum á þessum erfiðu kóróna­tímum. Við gefum Eddu orðið.

Ég er sem sagt við hesta­heilsu og komin á dá­sam­lega hjúkrunar­heimilið Lund, sem mat­vinnungur og er farin að eiga sam­skipti við lifandi fólk. Ég legg mig veru­lega fram við að þjónusta allt sem dregur andann þar (líka köttinn) en ég játa að van­máttur minn er tölu­verður gagn­vart því eina fólki sem er ó­missandi í heiminum í dag, fólk í heil­brigðis­stéttum.

Ég vildi óska þess að ég hefði menntun og reynslu þeirra sem eru ó­um­deildar hetjur og bjarg­vættir mann­kynsins í dag. Ég er hvorki læknir né hjúkrunar­fræðingur en grobba mig tölu­vert af því að hafa fengið 10 í ein­kunn í um­búnaði þegar ég vann á sjúkra­húsi sem ung kona hér í denn. Það var á þeim árum þegar ég hélt að ég ætlaði að mennta mig sem Röntgen­tæknir (Geisla­fræðingur heitir það í dag). Ég kunni m.a.s. að mæla sökk í þvagi!

Hér er mér tekið af kær­leika en tæp­lega treyst fyrir neinu meira krassandi en að hella uppá gott kaffi og lesa fyrir heimilis­fólkið. Að vísu hækkaði ég ögn í tign í gær þar sem mér var bæði falið að strauja gula páska­dúka og klippa trjá­greinar í vasa.

Ég kveikti ekki í húsinu og er með alla puttana enn­þá.

Ég sé mikið eftir því núna að hafa aldrei lært á gítar.

Ég upp­lifi mig svo­lítið eins nunnuna sem söng Dominiqu­e í gamla daga - er ó­venju blíð­leg og ljúf eftir að ég dró mig út úr sam­fé­laginu og fór að um­gangast ein­göngu heldri borgara og fólk í heil­brigðis­stétt. Brest líka í söng í tíma og ó­tíma.

Ég fékk þó eitt sím­tal um daginn sem gerði það að verkum að hornin spruttu upp­úr hausnum á mér á meðan ég hlustaði á þá rudda­legustu sví­virðingaromsu sem ég hef heyrt um ævina. Sam­stundis óskaði ég þess að hyskið í símanum fengi bletta­skalla, ístru og þvag­sýrugigt og við það missti ég geisla­bauginn niður í augu og blindaðist af refsi­þörf og gremju!

Svo sá ég hroða­lega eftir því að hugsa svona ljótt og dreif mig í kristi­lega í­hugun og setti Biblíuna undir koddann og sef með hana þar. Er með smá háls­ríg en er hætt að sjá fyrir mér hvernig Karma sjálfur mun fara með ó­sann­gjarna þver­hausa og ill­menni!

Guð blessi ykkur öll og verið hraust