Edda Falak birti mynd og gerði allt brjálað: „Eyddu þessu samstundis Edda“

Edda Falak, fjármálafræðingur og hlaðvarpsþáttastjórnandi, setti Twitter hálfpartinn á hliðina í gær þegar hún birti mynd á samfélagsmiðlinum vinsæla.

Það skal strax tekið fram að um var að ræða sárasaklausa mynd af ristuðu brauði en það dugði þó til að æsa upp í mannskapnum. „Þetta brauð er of mikið ristað og ekki orð um það meir,“ sagði Edda en eins og sjá má á meðfylgjandi mynd var brauðsneiðin nokkuð vel ristuð. „Brunarúst,“ bætir Edda við.

Ekki stóð á viðbrögðunum við færslunni og virðast margir hafa skoðun á því hvernig brauðið er ristað. Tónlistarkonan Elísabet Ormslev sagði einfaldlega: „Þetta er FULLKOMIÐ ristað brauð Edda!“

Edda Falak er því hjartanlega ósammála og sagði: „Fullkomið er full langt gengið! Ef brauðið væri alveg eins og neðri hlutinn þá væri þetta nálægt fullkomnun.“

Fatahönnuðurinn Guðmundur Jörundsson, oft kallaður Jör, lét sitt ekki eftir liggja. „Eyddu þessu samstundis Edda,“ sagði hann. Því svaraði Edda svona: „Ekki að ræða það Jör.“

Baggalúturinn Karl Sigurðsson sagði að brauðið væri mjög illa ristað. „Allt of ójafnt,“ sagði hann og bætti Edda því við að brauðið væri líka allt of brennt. Fleiri hafa skoðun á því hvernig brauð á að vera ristað og má sjá brot af umræðunni hér að neðan.

„Lélegasta take í sögu twitter. Þetta er einfaldlega of lítið ristað.“
„Sammála. Það á að vera gullið en ekki arða af svörtu.“
„Þetta brauð er ekki nógu mikið ristað og ekki orð um það meir.“

Myndina má sjá hér að neðan. Hvernig vilt þú, lesandi góður, hafa brauðið þitt ristað?