Draumalisti andstæðinganna er kominn fram

Eftir misheppnað prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrr í mánuðinum, þar sem enginn frambjóðenda hlaut bindandi kosningu, áttu margir von á því að reynt yrði að fríska listan upp með nýjum frambjóðendum sem væru líklegir til að draga fylgi að lista flokksins. Sú varð ekki raunin.

Tíu efstu sætin eru óbreytt frá úrslitum prófkjörsins. Síðan er raðað upp þar á eftir eins og tíðkast en sú upptalning skiptir litlu máli. Einungis borgarstjórnarflokkurinn skiptir máli, það er að segja aðal- og varaborgarfulltrúar.

Samkvæmt stórri skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt var þann 18. mars mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 20,7 prósent sem gæfi flokknum fimm borgarfulltrúa. Ef svo fer verður borgarstjórnarflokkurinn skipaður tíu manns. Fimm efstu sæti listans skipa Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Björn Gíslason. Sjötta sætið, sem ætla verður að flokkurinn líti á sem baráttusætið í borgarstjórnarkosningunum,skipar svo Friðjón Friðjónsson.

Vitað er að kjörnefnd hafði áhuga á að færa til á listanum og setja inn fólk sem getið hefur sér gott orð í þjóðfélaginu og væri líklegt til að draga fylgi að flokknum í kosningunum. Um það var hins vegar engin samstaða. Hver hékk á sínu roði og þar blandast einnig inn í að fulltrúar stríðandi fylkinga í flokknum í Reykjavík skipa umrædd sex efstu sæti. Talið er að tveir þeirra komi úr stuðningsmannaliði Áslaugar Örnu en fjórir eru taldir vera stuðningsmenn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem bar sigurorð af fylkingu Áslaugar Örnu í hörðum prófkjörsslag um efsta sæti í Reykjavík síðast liðið vor.

Eftir prófkjörið var þeim sem skipuðu tíu efstu sætin boðið til fundar í Hveragerði þar sem reynt var að sætta fylkingarnar og berja hópinn saman. Það gekk víst svona og svona, eins og haft er eftir einum fundarmanna. Þar kom alveg skýrt fram að enginn var tilbúinn að hliðra til með neinum hætti. Kjörnefnd varð þá fyllilega ljóst að næg væru vandræðin og nægur væri klofningurinn í hópnum þó að ekki væri farið út á þann hála ís að hnika fólki til með það að markmiði að auka fylgi flokksins. Frambjóðendurnir líta þannig á að fyrst komi þeir og flokkurinn þar langt á eftir.

Andstæðingar flokksins í kosningunum ráða sér ekki fyrir kæti vegna stöðunnar. Bent hefur verið á að frambjóðendur eins og Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Friðjón Friðjónsson hafi engin tengsl utan við flokkinn sjálfan. Þeir sem styðja þau eru kjósendur sem myndu alltaf kjósa Sjjálfstæðisflokkinn, alveg sama hverjum yrði stillt upp á lista. Þau eru talin eiga það sammerkt að ná ekki til neinna hópa utan við innsta kjarna flokksins sjálfs.

Löngu er liðin sú tíð að Sjálfstæðisflokkurinn stillti upp fólki sem átti djúpar rætur víða í samfélaginu, til dæmis í launþegahreyfingunni, íþróttaforystu, heilbrigðisstéttum, skátum og meðal kennara og skólastjórenda. Að ekki sé minnst á atvinnulífið sjálft. Nú er engu slíku til að dreifa.

Í tveimur efstu sætunum sitja svo ungar konur sem virðast vera algerlega á öndverðum meiði varðandi stór álitamál eins og borgarlínu, framtíð Reykjavíkurflugvallar og fyrirkomulag Laugarvegarins. Vandasamt verður að finna samræmdan tón í málflutningi þeirra.

Þetta getur orðið mjög skemmtilegt!

- Ólafur Arnarson