Dóms­dags­spá­mað­ur­inn

Gylfi Magnússon spáir fjármálastormi eða jafnvel stormum á næstunni.

Gylfi, sem er formaður bankaráðs Seðlabankans, hefur áhyggjur af vaxandi verðbólgu og horfum á fjármálamörkuðum.

Hann segir hagkerfi heimsins vera að súpa seyðið af fordæmalausri peningaprentun í gegnum efnahagsþrengingar, fyrst í kjölfar efnahagskrísunnar 2008, sem var algert hrun hér á landi, og svo aftur í heimsfaraldrinum vegna Covid.

Þetta valdi mikilli vá, auk þess sem „alls konar rugl“ hafi byggst upp til hliðar við hið opinbera fjármálakerfi. Nefnir Gylfi sérstaklega til sögunnar rafmyntir, sem flæki stöðuna. Gylfi hefur raunar enga trú á bitcoin og telur myntina með öllu verðlausa.

Með hliðsjón af þessu öllu, auk þess sem stríð geisi og heimsfaraldrinum sé ekki endanlega lokið, segir Gylfi best að halda sér fast, líkur séu á stormum.

Gylfi er ekki alveg óvanur því að spá hörmungum. Raunar má færa fyrir því rök að hann sé rútíneraður dómsdagsspámaður.

Nokkrar sekúndur í hrun 2008 var hann óðamála í fréttum RÚV og sagði bankana tæknilega gjaldþrota, innlend hlutafélög sömuleiðis, Ísland gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar í erlendri mynt, fjármálakerfið væri komið í greiðsluþrot og ekki væri einu sinni hægt að útvega gjaldeyri til að flytja inn „eðlilegar“ vörur.

Í kjölfar þessara yfirveguðu ummæla hagfræðidósentsins gerði fólk áhlaup á bankana og reyndi að ná út innistæðum sínum og færa má góð rök fyrir því að orð hans hafi haft svipuð áhrif og þegar olíu er skvett á eld. Þegar orð hans féllu sat Seðlabankinn reyndar á gjaldeyrisforða upp á 500 milljónir Bandaríkjadala – það var ekki fyrr en eftir að Seðlabankinn glutraði frá sér þeim forða, sem gerðist nokkrum dögum síðar, að einhver hætta skapaðist á vöruskorti hér vegna gjaldeyrisskorts.

Í ársbyrjun 2009 sótti nefndur Gylfi svo um ráðherraembætti í ræðu sem hann flutti á útifundi á Austurvelli. Þar birtist metorðagjarn stjórnmálaður sem sat í nokkur misseri í stól viðskiptaráðherra þar til nauðsynlegt reyndist að skipta honum út eftir að uppvíst varð um „ónákvæmni“ í upplýsingagjöf hans til Alþingis.

Ráðherrann Gylfi Magnússon var í forsvari fyrir gríðarlegum eignatilfærslum hér á landi, tilfærslum frá Íslendingum til erlendra fjármálafyrirtækja og tilfærslum frá almenningi til fjármálaafla.

Nú situr Gylfi Magnússon í forsæti bankaráðs Seðlabankans. Að sönnu stýrir hann ekki peningastefnu bankans – en getur væntanlega haft áhrif á matseðil vikunnar í mötuneyti bankans, hið minnsta þær vikur sem bankaráðið fundar.

All kaldhæðnislegt er, engu að síður, að ráðherrann sem stýrði stórfelldri eignatilfærslu eftir hrunið skuli eftir Covid vera formaður bankaráðs Seðlabankans sem flytur milljarðatugi frá almenningi og atvinnufyrirtækjum til auðjöfra og fjármálakerfisins með herskárri vaxtastefnu, sem að sögn er ætlað að kveða niður innflutta verðbólgu og afleiðingar framboðsskorts á húsnæðisverð.

- Ólafur Arnarson