Davíð óskar eftir því að rífa niður húsið við hliðiná glæsihýsi hans

Davíð Helgason, einn af stofnendum hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Software, hefur óskað eftir því við Seltjarnarnesbæ að fá að rífa niður einbýlishús að Steinavör 10 sem er í hans eigu.

Húsið er við hlið Hrólfsskálavör 2 á Seltjarnarnesi sem Davíð keypti af Arion banka en var áður í eigu Skúla Mogesen.

Davíð gekk frá kaupunum á Steinavör 10 fyrr á þessu ári en greint var frá kaupunum á vef Viðskiptablaðsins. Kom þar fram að lóðin væri fimm þúsund fermetrar og á henni stæði einbýlishús frá 1952.

Seltjarnarnesbær tók fyrir beiðni Kristjáns Arnars Kjartanssonar sem óskaði eftir leyfi til að rífa Steinavör 10 fyrir hönd Davíðs á fundi skipulags- og umferðarnefndar.

Um leið var óskað eftir stöðuleyfi vegna Yurt-tjalds og timburpalls á lóðinni sem húsið stendur á.

Kemur fram að skipulags- og umferðarnefnd bæjarins taki jákvætt í erindið en það þarf að sækja formlega um byggingarleyfi fyrir niðurrifi mannvirkja á þar til gerðu eyðublaði og skila inn til byggingarfulltrúa.

Davíð sem er annar Íslendinga á nýjasta lista Forbes yfir milljarðamæringa í heiminum keypti húsið við Hrófsskálavör 2 fyrir á sjötta hundrað milljón króna samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Eignarhlutur Davíðs í Unity, sem er um fjögur prósent, var metinn á tvö hundruð milljarða króna þegar hann keypti Hrófsskálavör 2.