Ætlar davíð í miðflokkinn?

„Leiðarahöfundur Morgunblaðsins, sem er líklegast Davíð Oddsson ritstjóri, tók óvænta stefnu þegar hann beinlínis sagði það ekki harmsefni að Sjálfstæðisflokkurinn liði undir lok. Benti hann réttilega á að stjórnmálaflokkar eru ekki eilífir, líkti hann svo flokknum sem hann stýrði í áraraðir við Íhaldsflokkinn danska sem er farinn úr því að vera valdaflokkur í jaðarflokk.“

Þetta skrifar Ari Brynjólfsson í skoðanapistli í Fréttablaðinu í dag.

Hann heldur áfram: „Davíð hefur lengi dásamað Miðflokkinn og leiðtoga hans – nú þegar hann er búinn að segja skilið við Sjálfstæðisflokkinn þá hlýtur hann endanlega að vera kominn yfir í Miðflokkinn.“

„Davíð líkir stefnubreytingum í takt við tíðarandann við eilífðarvél, þ.e.a.s. tilgangslaust apparat sem stoppar alltaf að lokum. Pirringinn í Hádegis­móum má að þessu sinni rekja til nýrra laga um þungunarrof, sem könnun Fréttablaðsins leiddi í ljós að átta af hverjum tíu í yngsta þjóðfélagshópnum styðja,“ segir Ari.

Að lokum veltir hann því fyrir sér hvort þessu sé ekki einmitt öfugt farið. „Allt þetta vekur óneitanlega upp spurninguna hvort það sé ekki einmitt öfugt, að stjórnmálaflokkar líði undir lok einmitt þegar þeir skipta aldrei um stefnu og aðlagast ekki nýjum tímum. Annars eiga þeir á hættu að enda með 13,7 prósenta fylgi og sækja það aðeins til elstu þjóðfélagshópanna.“