Davíð er ótvíræður höfundur hrunsins samkvæmt bókinni Málsvörn Jóns Ásgeirs

Allt frá alþjóðlega bankahruninu árið 2008 hefur staðið yfir leit að helstu sökudólgum efnahagshrunsins á Íslandi. Óhætt er að segja að farið hafi fram áróðursstríð hér á landi vegna þessa þar sem mikilvægir leikendur hafa bent hver á annan og borið fram sjónarmið sín. Þessu stríði er ekki lokið og það tók á sig nýja mynd þegar Jón Ásgeir Jóhannesson, einn allra umsvifamesti athafnamaður Íslandssögunnar, steig inn á sviðið og kynnti bók eftir Einar Kárason, rithöfund, um upplifun sína af atburðarrás síðasta aldarþriðjungsins.

Sagan er vitanlega sögð af sjónarhóli Jóns Ásgeirs og því ekki hlutlaus lýsing. En hún er mikilvæg heimild um þá merkilegu þróun sem varð hér á landi í verslun og viðskiptum frá því í kringum árið 1990 og fram að hruni. Þá er hún ekki síður merkileg fyrir þær upplýsingar sem birtar eru um þróun mála eftir hrun og þá ótrúlegu aðför sem gerð var að Jóni Ásgeiri, fyrirtækjum hans og fjölskyldunni allri. Ljóst er að ekki virtist þurfa að fara í öllum tilvikum eftir gildandi lögum og reglum landsins þegar unnið var úr flókinni stöðu. Bókin er áfellisdómur yfir réttarfari á Íslandi og gefur sterklega til kynna að valdamiklir stjórnmálamenn hafi farið langt út fyrir valdsvið sitt og látið persónulegan hefndarþorsta ráða för.

Margar bækur hafa verið skrifaðar um hrunið. Um fáa atburði síðari áratuga hefur verið fjallað meira en efnahagsáföll þessa tíma. En bókin um Jón Ásgeir er sérstök að því leyti að þá birtist málsvörn manns sem hefur verið hundeltur af kerfinu í sextán ár með öllum tiltækum ráðum, jafnt löglegum sem ólöglegum, jafnt eðlilegum sem óeðlilegum. Enginn vafi leikur á því að Jón Ásgeir er einn helsti þolandi efnahagshrunsins á Íslandi, þó margir hafi borið skarðan hlut frá borði. Í ljósi þessa er bókin Málsvörn mikilvæg heimild sem varpar skýrara ljósi á ýmsa atburði sem deilt hefur verið um.

Vitnað er í mikinn fjölda heimilda. Rakin eru ummæli manna sem birst hafa í fjölmiðlum og bókum eða fyrir dómstólum. Rætt er við fjölda fólks sem kom við sögu mála. Margir eru samferðarmenn Jóns Ásgeirs og vinveittir honum en einnig er skýrt frá andstæðum sjónarmiðum sem varpa þannig gleggra ljósi á viðfangsefnin sem fjallað er um. Þetta eykur á gildi bókarinnar sem heimildar um þá atburði sem fjallað er um.

Í umræðunni um hrunið á Íslandi hafa ýmsir reynt að skella allri skuldinni á athafnamenn sem nefndir hafa verið „útrásarvíkingar“ vegna þess að þeir tóku gríðarlega mikil lán og voru áhættusæknir. Útrásin var lengi vel hafin upp til skýjanna en svo var henni kennt um þegar á móti blés. Ljóst má vera að þessir athafnamenn skuldsettu fyrirtæki sín mikið vegna þess að lánsfé stóð til boða. Það þarf tvo til. Hins vegar má öllum vera ljóst að hagkerfi lítillar þjóðar þoldi ekki svo mikla skuldsetningu. Að ekki sé talað um örmyntina íslensku krónuna sem blakti þá eins og lauf í vindi - og gerir enn. En var það verkefni útrásarvíkingana að stemma stigu við útþenslu hagkerfisins? Nei, því verður ekki haldið fram af neinni sanngirni og ekki með neinum rökum. Yfirvöld áttu að sníða rammann utan um hagkerfi landsins. Þeir sem brugðust í þeim efnum voru ráðamenn Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og einnig stjórnmálamenn, bæði innan ríkisstjórnarinnar og eins í stjórnarandstöðu sem varaði ekki við og veitti ekki aðhald eins og ætlast mátti til af henni.

Snargalin vaxtastefna Seðlabanka Íslands gróf jafnt og þétt undan stöðu fyrirtækja og almennings í landinu þannig að mótstöðuaflið var of lítið þegar á móti blés. Þá er ljóst að íslenska örkrónan réði ekki við alla útþensluna og þegar áföllin dundu yfir vildi enginn koma Íslandi til hjálpar því engin þjóð hafði neitt við íslenskar krónur að gera. Það fundust því engar varnir á Íslandi til þrautavara eins og í öðrum löndum. Það var hægt að bjarga bankakerfi Danmerkur vegna evrutengingar, bankakerfi Bretlands vegna breska pundsins og bankakerfi Bandaríkjanna vegna dollars. Allar þessar þjóðir höfðu alvörumyntir á bak við sig. En Ísland hafði litlu krónuna sem engum gagnaðist þegar á móti blés.

Íslenska krónan var örlagavaldur í hruninu. Offjárfesting íslenskra banka, sjóða og fjárfesta sem jafnan eru nefndir „útrásarvíkingar“, hafði að sjálfsögðu einnig mikil áhrif og sama gildir um þá eftirlitsaðila sem sváfu á verðinum eins og Fjármálaeftirlitið, Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnina. Til viðbótar við þetta kemur svo hvernig einstakir þáverandi ráðamenn misnotuðu vald sitt með hörmulegum afleiðingum fyrir atvinnulífið, almenning, ríkisvaldið og einstaklinga eins og Jón Ásgeir Jóhannesson.

Davíð Oddsson hefur af mörgum verið nefndur „höfundur hrunsins“ vegna rangra og órökstuddra ákvarðana sem hann tók sem formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Þetta er rakið mjög ítarlega í bókinni. Þar er lýst framvindu mála í lok september 2008 þegar formaður bankaráðs Glitnis gekk á fund Davíðs Oddssonar og óskaði eftir lánafyrirgreiðslu að fjárhæð 600 milljónir evra. Fram kemur í bókinni að Jón Ásgeir, sem var helsti hluthafi bankans, var því mótfallinn að leitað yrði til Seðlabankans á þessum tíma einfaldlega vegna þess að hann treysti Davíð ekki. Jón Ásgeir taldi sig vita að Davíð myndi síst af öllu vilja greiða götu Baugsmanna eða skyldra aðila. Jón Ásgeir óttaðist hefndarhug Davíðs. Það kom svo á daginn að Seðlabanki Íslands lagði hart að ríkisstjórninni að samþykkja að Glitnir yrði þjóðnýttur með því að ríkið keypti 75 prósent hlutafjár í bankanum fyrir 600 milljónir evra. Illu heilli lét Geir Haarde undan þrýstingi, formaður Samfylkingar lá á sjúkrahúsi í New York og Davíð tókst að halda málinu í eigin höndum fram á síðustu stundu gegn vilja flestra og olli ómældum skaða með þessum vinnubrögðum. Að lesa um atburði helgarinnar þegar örlög Glitnis voru ráðin er hreint út sagt hrollvekjandi.

Þjóðnýting Glitnis, samkvæmt kröfum Davíðs Oddssonar, ýtti hruninu af stað. Hann er því réttnefndur „höfundur hrunsins“.

Í bókinni kemur skýrt fram að ýmsar betri leiðir til að bregðast við vandanum voru færar. Enginn gerir lítið úr því að mikill vandi steðjaði að bankakerfinu og íslensku samfélagi eins og öðrum þjóðum heims. En hefði öðrum aðferðum verið beitt, má ætla að ekki hefði þurft að fara eins illa fyrir íslenskri þjóð og raun ber vitni. Um það er fjallað í löngu og býsna trúverðugu máli í bókinni. En Davíð kom fram hefndum og gat ornað sér við þá niðurstöðu um skamma hríð þar til hann var sjálfur rekinn úr starfi seðlabankastjóra.

Skömmu eftir að vinstristjórnin tók við völdum í febrúar 2009 var Eva Joly flutt til landsins að frumkvæði Ögmundar Jónassonar og Sigurðar Gísla Pálmasonar með það að markmiði að leggja á ráðin um hvernig best væri að ráðast gegn þeim sem höfðu verið í forsvari fyrir banka og stærri fyrirtæki sem hlotið höfðu mikla gagnrýni. Eva Joly er norsk-frönsk og hefur sérhæft sig á sviði refsinga. Hún var þá og er enn mjög umdeild. Hún vildi verða forseti Frakklands, bauð sig fram til þess embættis og hlaut niðurlægjandi útkomu. Einungis 1 prósent kjósenda studdu hana þannig að framboð hennar var hin mesta sneypuför. Fram kom í skoðanakönnun franska stórblaðsins Le Monde að 50 prósent aðspurðra teldu að Eva Joly væri óheiðarleg og 80 prósent töldu hana óhæfa. Þessa manneskju réði vinstristjórnin til ráðgjafar og kostaði til tugum milljóna króna. Í bókinni um Jón Ásgeir er þessi ráðstöfun að sjálfsögðu gagnrýnd harðlega.

Unnt væri að halda hér áfram að fjalla um ótrúlega framkomu ríkisstjórnar, dómsyfirvalda og annarra yfirvalda sem gengu harkalega fram gegn Baugsfólkinu og öðrum fyrirsvarsmönnum banka og stærri fyrirtækja á Íslandi eftir hrun. En hér er ekki rúm til þess og því er ekki um annað að gera en vísa lesendum á bókina sjálfa, Málsvörn. Bókin er sannarlega slík heimild að full ástæða er til að lesa hana, vilji menn kynna sér merkilega hlið á eftirmálum efnahagshrunsins á Íslandi.

Að lokum verður þó vikið að einu því umdeildasta sem bókin fjallar um. Í maí árið 2010 hóf slitastjórn Glitnis málferli gegn forsvarsmönnum bankans fyrir dómstóli í New York í Bandaríkjunum. Jón Ásgeir og nokkrir samstarfsmenn hans voru þá dregnir fyrir dóm í Bandaríkjunum. Það þótti vægast sagt einkennilegt og illa rökstutt. Ljóst var að slitastjórnin valdi dýrustu leiðina fyrir hina stefndu til að verjast enda er lögfræðikostnaður í Bandríkjunum himinhár. Þetta ferli tók langan tíma og kostaði stefndu gríðarlegar fjárhæðir. Slitastjórnin notaði marga milljarða í þennan vafasama málarekstur. Þannig er talið að alþjóðlega rannsóknarfyrirtækið Kroll hafi fengið greidda 2,3 milljarða íslenskra króna fyrir leit að földum fjármunum stefndu um allan heim. Ekkert fannst og ekkert kom út úr vinnu þeirra - annað en þessi mikli kostnaður. Þegar loks var dæmt í málinu var því vísað frá á nokkrum mínútum enda var það della frá upphafi.

Sneypuför slitastjórnar Glitnis var stýrt af Seinunni Guðbjartsdóttur, lögmanni, sem var formaður slitastjórnarinnar. Hún fór algera sneypuför með þetta mál til New York. Hins vegar er því ósvarað hve miklar þóknanir runnu til hennar og samstarfsmanns hennar, Páls Eiríkssonar, meðeiganda hennar að lögmannsstofu.