Dagur verður flottur formaður

Þegar Logi Einarsson tilkynnti í forsíðuviðtali við Fréttablaðið um helgina að hann hefði ákveðið að hætta formennsku í Samfylkingunni á landsfundi flokksins næsta haust, reyndu margir að rýna í orð hans í viðtalinu til að meta hvern hann styddi sem eftirmann. Logi nefndi réttilega að næsti formaður þyrfti að vera annarar gerðar en hann sjálfur. Vitaskuld er það rétt metið og hafa verður í huga að Logi sóttist ekki eftir formennsku heldur fékk hann verkefnið fyrirvaralaust í fangið.

Flokkurinn var í miklum öldudal, þáverandi formaður, Oddný Harðardóttir, gafst upp og sagði af sér. Logi var þá varaformaður og sat uppi með formennskuna. Síðan eru liðin tæp sex ár og þegar Logi kveður formennsku í Samfylkingunni næsta haust hefur hann gegnt formennsku lengur en nokkur annar, lengur en Össur Skarphéðinsson, Ingibjörg Sólrún, Jóhanna, Árni Páll og Oddný. Sex formenn á 22 árum er ekki mikill stöðugleiki.

Logi sagði í viðtalinu að næsti formaður þyrfti að vera reyndur mannasættir. Með þeim orðum hefur hann væntanlega átt við Dag B. Eggertsson borgarstjóra. Hann er nákvæmlega réttur maður til formennsku í Samfylkingunni. Réttur maður á réttum stað, á réttum tíma. Dagur stendur á fimmtugu og er kominn með víðtæka pólitíska reynslu. Hann hefur einmitt mikla reynslu af því að leiða saman fólk úr ýmsum áttum og mismunandi flokkum. Í lok næsta árs lýkur hann farsælum borgarstjóraferli sínum og þá ætti hann að vera þess albúinn að láta til sín taka í landsmálunum, setjast á Alþingi sem formaður og leiðtogi Samfylkingarinnar. Hann fer nú fyrir miðjubandalagi fjögurra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur og með Dag í forsvari fyrir Samfylkinguna opnast möguleiki á slíku miðjubandalagi við myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Þjóðin þráir aðrar lausnir en núverandi dauðþreytta ríkisstjórn sem reynir að vera allt og ekkert, með stefnu og stefnuleysi yfir þveran völlinn. Þetta er orðið mjög þreytt og tími til kominn að hvíla þjóðina á Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum á vettvangi landsstjórnarinnar. Það getur gerst standi miðjuflokkarnir saman, fyrst í borgarstjórn Reykjavíkur og svo á vettvangi landsmálanna næst þegar verður kosið til Alþingis sem gæti orðið fyrr en flesta grunar. Við þær aðstæður mun sannarlega muna mikið um forystumann á borð við Dag Eggertsson.

Hugmyndir um að kjósa aðra í stöðu formanns Samfylkingarinnar nú eru galnar. Dagur er svo sjálfsagður og með slíka yfirburði að varla þarf að ræða um aðra kosti. Nafn Kristrúnar Frostadóttur hefur verið nefnt, og víst er að hún hefur metnað og burði til forystu. Skynsamlegt væri hjá henni að ljá Degi stuðning sinn og bjóða sig fram til varaformennsku í flokknum. Dagur kemur með reynslu, yfirvegun og yfirsýn og Kristrún kemur fersk og skörp með nýjar hugmyndir. Saman yrðu þau mjög sterk forysta Samfylkingarinnar, traust stoð til framtíðar.

Vonandi ber Samfylkingarfólk gæfu til að standa þétt saman um Dag.

Dagur B. Eggertsson verður flottur formaður Samfylkingarinnar.

- Ólafur Arnarson.