Dagur B. Eggertsson dregur sjálfstæðismenn sundur og saman í háði í bók sinni

Harmsaga Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur síðasta aldarfjórðunginn er meðal þess sem borgarstjóri gerir skil í nýrri, stórmerkilegri bók sinni, NÝJA REYKJAVÍK. Þar fjallar Dagur um framþróun og uppbyggingu í borginni hin síðari ár, spennandi framtíðaráform og gerir jafnframt grein fyrir pólitískum átökum að tjaldabaki. Á það ekki síst við um hjaðningavíg og klofning innan Sjálfstæðisflokksins sem hefur ekki náð vopnum sínum síðan Reykjavíkurlistinn hrifsaði af honum völdin árið 1994.

Þegar Ingibjörg Sólrún og félagar höfðu tvívegis borið sigurorð af Sjálfstæðisflokknum í borginni, árin 1994 og 1998, greip þáverandi formaður flokksins til sinna ráða og lét stilla vini sínum, Birni Bjarnasyni, upp sem leiðtoga lista flokksins í Reykjavík. Þar missti Davíð Oddsson marks. Ekki aðeins mistókst Birni að endurheimta stöðu flokksins í borginni heldur fékk Sjálfstæðisflokkurinn enn minna fylgi en áður og var fjarri því að endurheimta völdin. Innkoma Björns olli auk þess sárindum og reiði frambjóðenda sem gengið var fram hjá við val á oddvita.

Eftir hrakfarirnar 2002 hvarf Björn af vettvangi borgarmála og flokksmenn fylltust bjartsýni og baráttuhug. Efnt var til prófkjörs fyrir kosningarnar 2006 þar sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Gísli Marteinn Baldursson tókust á. Flokksforystan vildi Gísla – en Vilhjálmur sigraði og leiddi lista flokksins, sem bætti stöðu sína og náði 42% sem er langbesti árangur flokksins á þessari öld þó svo að flokksforystan hafi ekki stutt Vilhjálm af heilindum í kosningabaráttunni.

Vilhjálmur Þ. varð borgarstjóri, studdur af Framsókn, og hélt völdum í 16 mánuði – þar til félagar hans í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins sviku hann og við tók mikill glundroði.

Dagur lýsir því í bók sinni hvernig hann og Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG, spiluðu á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Gísla Martein Baldursson og Þorbjörgu Vigfúsdóttur eins og hljóðfæri. Þau létu dansa með sig og fóru gegn flokki sínum og leiðtoga – sýndu kjánaskap á meðan Dagur og Svandís beittu klókindum.

Átakasaga þessi er mun lengri. Vilhjálmur Þ. kom með krók á móti bragði og plataði Ólaf F. Magnússon inn í nýjan meirihluta – að því er virtist gegn vilja Gísla Marteins, Hönnu Birnu og félaga sem sýnd eru með sorgarsvip á kostulegum myndum í bókinni.

Harmsaga Sjálfstæðisflokksins virðist engan enda ætla að taka. Í kosningunum 2014 leiddi Halldór Halldórsson listann til verstu útkomu sögunnar. Flokkurinn fékk 25,7 prósent. Fjórum árum síðar leiddi Eyþór Arnalds listann og náði 30 prósenta fylgi, sem var hið næstlakasta í Íslandssögunni. Hópurinn sem Eyþór hefur leitt gegnum kjörtímabilið er klofinn og ekki sér fyrir endann á því.

Tími stórra sigra Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík virðist endanlega heyra sögunni til. Ýmsar skýringar á því er að finna í stórmerkilegri bók Dags B. Eggertssonar.

- Ólafur Arnarson.