Býður Áslaugu Örnu hálfa milljón til að ganga til liðs við Viðreisn

Páll Gunnarsson, tæknifrumkvöðull, býðst til þess að greiða Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra og ritara Sjálfstæðisflokksins, hálfa milljón króna ef hún gengur til liðs við Viðreisn. Palli ætlar ekki að leggja peningana inn á reikning Áslaugar, slíkt gæti talist sem mútur, heldur hyggst hann gefa þá til góðgerðarmálefnis að vali ráðherrans.

Palli segir í samtali við Hringbraut að honum sé full alvara með boðinu. „Mér finnst það meika mikið sens frá hennar hlið. Þegar Bjarni stígur til hliðar þá er Guðlaugur Þór Þórðarson tilbúinn. Hún er komin í goggunarröð sem er mjög erfið ef hún ætlar á toppinn,“ segir Palli. „Hún er á frjálslyndari hlið flokksins en það virðist vera bakslag í íhaldssemi þar.“

Palli segir að hugmyndin hafi vaknað eftir að frumvarpið um afglæpavæðingu dagaði uppi. „Ég er aðdáandi hennar þó ég sé ekki sammála henni í algjörlega öllu,“ segir hann. „Hún á að vera í umhverfi þar sem á ekki að halda aftur af henni. Ef hún fer til Viðreisnar þá myndi hún ná á toppinn. Hún og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir yrðu sturlað gott teymi.“

Ólíklegt, ef ekki ómögulegt, verður að teljast að Áslaug Arna gangi að boði Palla. Hún hefur verið virk í Sjálfstæðisflokknum um áraraðir, er með öruggt ráðherrasæti eftir kosningar ef flokkurinn fer í ríkisstjórn og stefnir lengra. Fyrir utan að hún hefur nú þegar mun meira en hálfa milljón króna í mánaðarlaun.