Brynjar mátaður við formennsku í KSÍ: „Klár í að skoða það“

Brynjar Níelsson íhugar framboð til formanns Knattspyrnusambands Íslands. Fréttablaðið greindi frá því í morgun.

Kosið verður til formanns KSÍ eftir áramót og búist er við að töluverður áhugi verði á starfinu. Vanda Sigurgeirsdóttir, nýkjörin formaður KSÍ, mun væntanlega gefa kost á sér áfram en þá hafa nokkrir einstaklingar verið mátaðir við þennan rjúkandi heita stól.

Einn af þeim er Brynjar Níelsson. Þegar Fréttablaðið heyrði í honum í morgun hafði hann þetta um málið að segja: „Það er búið að viðra nokkrar hugmyndir við mig. Ég get ekki sagt að ég hafi skoðað KSÍ framboð mjög alvarlega. Eina sem ég hef sagt er að ef það er almennur áhugi fyrir því í hreyfingunni, þá er ég klár í að skoða það.“

Eins og frægt er datt Brynjar út af þingi í nýafstöðnum Alþingiskosningum. Hann hefur legið undir feldi síðan og kveðst spenntur fyrir því hvað framtíðin beri í skauti sér. Kannski leynist framtíð Brynjars á formannsstóli KSÍ.