Brynjar fullur eftirsjár: „Ég sé mjög eftir þessu og vona að þjóðin fyrirgefi mér“

„Ég sé mjög eftir þessu og vona að þjóðin fyrirgefi mér. Vona að þetta komi mér ekki um koll í uppstillingu flokksins fyrir næstu kosningar,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í stuttum pistli á Facebook-síðu sinni.

Vísir greindi frá því í morgun – og birti myndband – að Brynjar hefði laumast til að fá sér í vörina þegar hann sat á stóli forseta Alþingis í gær. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra stóð þá í pontu og á myndbandinu mátti sjá þegar Brynjar laumaðst til að troða nikótínpúða undir vörina sem í frétt Vísis var reyndar fullyrt að væri tóbak.

„Þrátt fyrir skemmtilegar og hnyttnar ræður þingmanna er ekki alltaf auðvelt fyrir forseta þingsins að halda einbeitingu og vöku sinni. Því þurfa þeir stundum að leita á náðir lyfja. Sumir hella í sig kaffi áður en farið er í stólinn en aðrir nikótíni og svo eru þeir sem láta bara nægja Opal eða brjóstsykur,“ segir Brynjar.

Hann segir að einhverjir kunni að hafa hneykslast á þessu og biðst Brynjar afsökunar á því. Viðurkennir hann að þetta sé ekki til eftirbreytni.

„Þótt mér finnist það smámál miðað við þessa daglegu druslugöngu í þingsalnum. Ég sé mjög eftir þessu og vona að þjóðin fyrirgefi mér. Vona að þetta komi mér ekki um koll í uppstillingu flokksins fyrir næstu kosningar.“