Brynjar fer hörðum orðum um stjórnarandstöðuna

23. apríl 2020
13:01
Fréttir & pistlar

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum, gagnrýnir stjórnarandstöðuna í pistli sem hann birti í gær Hann hefur eftir ónefndum, þingmanni að núverandi stjórnarandstaða sé sú slappasta í sögunni.

Að mati Brynjars eru þeir stjórnarandstöðuþingmenn verstir sem halda að aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar komi ekki almenningi til góða heldur fyrst og fremst fyrirtækjum. Þykir honum magnað að enn séu til þingmenn sem haldi að hagsmunir almennings séu ótengdir atvinnulífinu:

„Nokkrir í stjórnarandstöðunni standa upp úr í slappleika. Eru það einkum þeir sem halda að aðgerðir ríkisstjórnarinnar komi ekki fólkinu til góða heldur fyrst og fremst fyrirtækjum. Það eru sem sagt enn til þingmenn sem halda að hagsmunir almennings séu alveg ótengdir atvinnulífinu sem og tekjur ríkissjóðs, sem er í þeirra huga óþrjótandi auðlind. Þessi fyrrverandi þingmaður sagðist skilja vel að ríkisstjórnin hefði ekki meira samráð við stjórnarandstöðuna um aðgerðir og þakkaði Guði fyrir að þetta fólk héldi ekki um stjórnartaumana við þessar aðstæður.“