Braust inn á bar í mið­bænum og rændi engu nema hrá­efnum í einn kok­teil

Ó­prúttinn inn­brots­þjófur braust inn á bar í mið­bæ Reykja­víkur á laugar­dags­morgun. Sam­kvæmt heimildum Hring­brautar rændi þjófurinn engu nema hrá­efnum í einn kok­teil.

Eftir því sem Hring­braut kemst næst fór þjófa­varnar­kerfi knæpunnar af stað um átta leytið á laugar­dags­morgun. Þegar eig­endur bar að garði hafði engu verið stolið nema hrá­efnum í Negroni kok­teil.

Hring­braut er ekki kunnugt um eigna­spjöll vegna þjófnaðarins. Einungis þrjú hrá­efni þarf í Negroni en það er gin, Campari, og Ver­mouth. Vínó­tek.is segir um að ræða einn ein­faldasta kok­teil í heimi, sem er ítalskur að upp­runa.

Þjófurinn tók flösku af hverju. Inni á Vínó­tek.is er mælt með því að hræra hann. Setja gin, Campari og ver­mouth í viský­glas á­samt klaka. Hræra vel saman að því loknu og svo er hægt að skreyta með sneið af appel­sínu­berki.

Negroni – uppskrift

3 cl gin (London Dry Gin)

3 cl Campari

3 cl Vermouth Rosso