Bónus fyrir að stúta farsælli stofnun

Nýsköpunarmiðstöð Íslands var lögð niður fyrr á þessu ári að tillögu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur nýsköpunarráðherra. Án efa eru ríkisstofnanir hér á landi of margar en athyglisvert er að ráðherra nýsköpunarmála skuli rjúka í að leggja niður starfsemi sem hefur það hlutverk að hlúa að nýsköpun og sprotastarfsemi.

Þórdís Kolbrún hefur gegnt embætti nýsköpunarráðherra í fimm ár og fátt hefur gerst í málaflokknum á þeirri vakt annað en niðurlagning Nýsköpunarmiðstöðvar. Ekki kom sú ákvörðun vegna þrýstings sprotafyrirtækja eða annarra sem koma að nýsköpun, enda hefur Nýsköpunarmiðstöð Íslands þótt farsæl stofnun og góð viðbót við t.d. Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, sem mörgum þykir hafa verið um of háður rótgrónum og hefðbundnum atvinnugreinum í landinu á borð við útgerð og landbúnað. Hugmyndin að því að leggja niður Nýsköpunarmiðstöðina virðist hafa komið innan úr ráðuneytinu eða frá ráðherra sjálfum. Óljóst er hver ástæðan er, nema ef vera skyldi að nú getur í öllu falli enginn sakað ráðherra nýsköpunarmála um að hafa ekkert gert í málaflokknum á fimm árum.

Svo virðist sem flanað hafi verið að hlutum. Kostnaður við niðurlagninguna nam hundruðum milljóna og í september í fyrra greindi DV frá því að kostnaðurinn væri áætlaður 305 milljónir. Einnig virðist álag á starfsfólk miðstöðvarinnar vegna niðurlagningarinnar hafa verið óheyrilegur. Í öllu falli samþykkti ráðherra sérstaka launahækkun upp á 7 prósent til Sigríðar Ingvarsdóttur forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands vegna aukinnar vinnu í tengslum við ákvörðun ráðherra um að leggja niður stofnunina. Samkvæmt heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar starfar enn þriggja manna teymi undir forystu Sigríðar við frágang vegna niðurlagningarinnar þannig að enn bætir í kostnað.

Sigríður er reyndar fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæmi nýsköpunarráðherra. Hún var varaþingmaður í Norðvesturkjördæmi frá 1999 og tók sæti á Alþingi þegar séra Hjálmar Jónsson sagði af sér þingmennsku til að gerast dómkirkjuprestur 2001. Sat hún út kjörtímabilið til 2003.

- Ólafur Arnarson