Bölsýnisraddir kveðnar í kútinn

Nýafstaðið hlutafjárútboð Íslandsbanka er sigur fyrir íslenskan hlutabréfamarkað. Kauphöllin eflist við að 24 þúsund nýir hluthafar koma inn í öflugt fjármálafyrirtæki sem þar er skráð. Hlutafjárútboðið markar upphaf nýrrar uppsveiflu á íslenskum hlutabréfamarkaði og aukinn áhuga almennings á hlutabréfaviðskiptum.

Nú er kjörið tækifæri til að fylgja eftir þessu glæsta útboði og taka á ný upp skattaafslátt af hlutabréfaviðskiptum einstaklinga. Í þessu sambandi er tilvalið að rifja upp að í tæpa tvo áratugi, frá 1984 til 2002, var einstaklingum heimilaður frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna hlutabréfakaupa.

Skattaafslátturinn stuðlaði mjög að þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði. Hann var tímabundinn og nokkrum sinnum framlengdur. Þegar kom fram á árið 2002 töldu stjórnvöld að upphaflegum tilgangi afsláttarins væri náð og var hann því felldur niður í lok þess árs.

Eftir að skattaafslátturinn var felldur niður dró hægt og örugglega úr beinni þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði og eignarhald skráðra félaga varð markvisst mun samanþjappaðra en verið hafði. Samanþjappað eignarhald dregur úr virkni markaðarins. Vilji menn stuðla að viðvarandi dreifðu eignarhaldi skráðra félaga, virkum og heilbrigðum hlutabréfamarkaði, er mikilvægt að skapa sérstaka hvata fyrir almenning að fjárfesta beint.

En aftur að hlutafjárútboði Íslandsbanka. Þegar Bankasýslan lagði til í desember síðastliðnum að hafin yrði sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka þurfti ekki að bíða lengi eftir úrtöluröddum þeirra sem töldu glapræði að selja bankann.

Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra vildi alls ekki selja. Að hennar mati var tímasetningin vitlaus, auk þess sem vextir væru lágir og því betra fyrir ríkissjóð að eiga bankann áfram og hirða arðgreiðslur frá honum en að greiða niður skuldir.

Logi Einarsson og Inga Sæland töldu af og frá að selja bankann. Reyndar virðast margir stjórnmálamenn telja að í bönkunum eigi íslenska ríkið eilífðarvél sem mylji gróða og arð til ríkisins áhættulaust um alla framtíð.

Guðrún Johnsen lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn taldi mikla óvissu ríkja um eigið fé bankans og sagði hættu á að ríkinu tækist ekki að laða að ákjósanlega fjárfesta heldur sæti uppi með áhættusækna fjárfesta og hætt við að ekki fengist raunvirði úr sölunni.

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor taldi í janúar að „gamlir bankaræningjar“ myndu eignast bankann. Í síðustu viku taldi hann að verið væri að selja bankann á 50 prósent afslætti.

Nú er útboðið afstaðið. Í góðu hlutafjárútboði gildir sú gullvæga regla að seljandi reynir ekki að kreista hámarksverð út úr sölunni. Á það einnig við þegar ríkiseignir eru seldar. Ástæðan er fyrst og fremst sú að seljandi í hlutafjárútboði vill umframeftirspurn eftir hlutafé og hann vill að verð hlutanna hækki eftir að byrjað er að versla með þá í kauphöll. Það hefur neikvæð áhrif á skráð félag ef hlutabréf þess lækka strax eftir útboð. Miðað við fregnir af því að utanþingsviðskipti með bréf í Íslandsbanka á miðvikudag hafi verið á um 15 prósent hærra verði en í útboðinu ber ekki á öðru en að bærilega hafi tekist til með verðlagningu í útboðinu.

Ekki verður meira selt í Íslandsbanka á þessu ári. Hins vegar er mikilvægt að ný ríkisstjórn hefjist þegar handa eftir kosningar í september að undurbúa sölu á þeim 65 prósentum sem ríkið á enn strax á næsta ári. Miðað við horfur má búast við að á næstu 6-9 mánuðum hækki verð bréfa í bankanum um þriðjung á markaði. Samkvæmt því yrði hægt að selja afgangshlutinn á 150 milljarða og nota þá fjármuni á móti hallarekstri ársins.

Hér má ekki láta staðar numið heldur á að undirbúa sölu á 60 prósenta hlut ríkisins í Landsbankanum. Að henni lokinni værum við komin með norska líkanið hér á Íslandi, þar sem ríkið væri þátttakandi á bankamarkaði með 30-40 prósenta hlut í einum stórum banka en aðrir bankar væru skráðir á markað í dreifðu eignarhaldi.

- - Ólafur Arnarson