Björn Zoëga sagði upp 550 yfirmönnum og fimmfaldaði gjörgæsluna á spítalanum sem hann stjórnaði: „Það segir ýmislegt“

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans á árunum 2008 til 2013 og forstjóri Karólínska-sjúkrahússins í Svíþjóð frá 2019, segir að það hafi gengið vel að búa Karólínska sjúkrahúsið undir Covid. Björn var í viðtali í Dagmálum Morgunblaðsins þar sem hann fór yfir stöðuna þar sem hann stjórnar og hér heima.

„Við erum venju­lega með 38 gjör­gæslu­rými opin og það er al­veg á mörk­un­um að það dugi. En við erum líka með svo­kallaða létt­gjör­gæslu þar sem eng­inn er í önd­un­ar­vél en það er fylgst með og fólk fær mikið súr­efni og er í hálf­gerðri gjör­gæslu en fær ekki sömu lyfjaþyngd og slíkt. Við höf­um þurft að auka það tölu­vert. En ef við horf­um á gjör­gæsl­una þá fimm­földuðum við hana. Fór­um upp í 180 rúm í staðinn fyr­ir 38,“ segir hann um stöðuna á Karólínska í upphafi faraldursins.

Hann segist hafa séð enn fleiri mögu­leika á því að gera enn meira.

Skömmu fyrir faraldurinn sagði hann upp 550 skrif­stofu­mönnum og yf­ir­mönnum þeirra, fólk sem var „langt frá sjúk­ling­un­um“ eins og hann orðar það.

Björn segir ýmislegt koma til þannig að hægt hafi verið að auka af­köstin um 25% á sama tíma og starfs­fólki á 15 þúsund manna vinnustað hafi fækkað. Breytt verklag ráði miklu og að þá hafi stjórn­end­ur spít­al­ans „stolið“ góðum hug­mynd­um frá sjúkra­hús­um er­lend­is. Þar hafi t.d. reynst mjög vel að færa ábyrgðina á mönn­un deilda á fólk sem stóð nær verk­efn­un­um. Áður fyrr hafi lækn­ar haft á sinni könnu að stýra mönn­un hjúkr­un­ar­fræðinga. Nú sjái þeir um þetta sjálf­ir og hafi „leyst verk­efnið“.

„Þetta er vandi sem er um all­an heim. Það er hægt að skoða þetta í mörg­um lönd­um þar sem all­ir eru að glíma við að það vanti sérþjálfað fólk um allt. Þetta er síst vanda­mál með lækn­ana kannski, því við mennt­um nóg af þeim. Það hef­ur ekki verið menntað nóg af hjúkr­un­ar­fræðing­um, kannski nóg af þeim en ekki nóg af þess­um sér­menntuðu, því hlut­irn­ir verða sí­fellt flókn­ari, gjör­gæslu- og skurðhjúkr­un­ar­fræðing­um þar sem mesti skort­ur­inn er og í bráðahjúkr­un, því fólk er í meira mæli að lifa af slys og flutn­inga af slysstöðum.“

Varðandi stöðuna hér heima segir Björn það borðleggjandi að hætta að hafa spítalann á föstum fjárlögum og greiða eftir afköstum. Spítalinn hefur skuggakeyrt slíkt kerfi síðustu sex ár. Björn segir að fram­legðar­kraf­an veiti aðhald og fái fólk til að hugsa hlut­ina með öðrum hætti en þegar fjár­mun­irn­ir komi eins og á færi­bandi.

„Við vor­um í u.þ.b. 88% af kröf­unni um það sem við átt­um að fram­leiða, ein­hverj­ir kalla það pönt­un­ina til okk­ar. Í fyrra enduðum við í 105,5% og með nærri 1.000 færri starfs­menn. Það seg­ir ým­is­legt.“