Björn ritstjóri svarar Jóni Ósmann: „Lýsir sjúku hugarástandi“

Björn Þorfinnsson, ritstjóri DV, hefur birt aðra yfirlýsingu í tengslum við mál Jakobs Frímanns Magnússonar, oddvita Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, og Jóns Ósmann Arasonar og barns hans.

Í gær var birt yfirlýsing Jóns Ósmanns þar sem hann segir málið harmleik sem hafi ekki átt neitt erindi í fjölmiðla. „Um er að ræða viðkvæmt fjölskyldumál er snerist upp í harmleik sem við feðgar hefðum aldrei rifjað upp ótilneyddir, hvað þá opinberlega. Þetta var ömurlegt mál sem endaði með því að drengurinn minn hljópst að heiman frá móður sinni og lögreglan fól bróður mínum að gæta hans þar til ég kæmi til landsins.“

Fréttin snerist um bréf Jakobs ekki harmleikinn

Björn hafnar því alfarið að frétt DV hafi snúist um fjölskylduharmleikinn, hún hafi snúist um bréfaskriftir Jakobs Frímanns til utanríkisráðuneytisins:

„Frétt DV snerist ekki um fjölskylduharmleikinn heldur um stjórnsýsluna og hegðun manns sem sækist eftir þingsæti. DV fjallaði ekki á neinn hátt um hið viðkvæma forræðismál heldur eingöngu um meint óeðlileg afskipti Jakobs Frímanns af því að útvega liprunarbréf svo drengurinn kæmist út til föður síns. Það var gert á hlutlausan hátt og frambjóðandanum gefið tveggja daga svigrúm til að útskýra mál sitt,“ segir Björn.

Björn bendir á að liprunarbréfið sem Jakob Frímann sendi hafi verið það eina af rúmlega 2.000 sem voru send ráðuneytinu sem hafi verið afturkallað. Þá setur hann spurningamerki við að Jakob hafi ekki viljað ræða málið fyrr en eftir kosningar. „Ástæðan er sú að þeir félagarnir nýttu sér stöðu Jakobs Frímanns sem þjóðþekkts einstaklings og fyrrum starfsmann ráðuneytisins til að fá útgefið slíkt bréf á nokkrum klukkustundum.“

Sonurinn sé þolandi

Jón Ósmann segir að syni hans hafi þótt sárt að ekki skyldi leitað til hans: „Sonur minn, sem er þolandi í málinu og að verða 16 ára. Honum finnst afar sárt að DV skyldi ekki leita álits hans á fréttinni sem snertir persónu hans á mjög viðkvæman hátt. Hann reyndi að koma sinni sögu af erfiðum samskiptum við móður sína í þessu máli á framfæri við blaðamann DV en á hann var ekki hlustað.“

Ógeðfelld staða

Björn segir að DV hafi gert sitt ítrasta til að hlífa syni Jóns: „Ekkert í texta fyrstu fréttar var rekjanlegt til hans. Við nafngreindum engan nema Jakob Frímann sem aðeins nánustu vinir foreldranna tengja við þetta mál. Þá töluðum við um barn í stað drengs og töluðum bara um að faðirinn væri búsettur erlendis en ekki í hvaða landi.“

Það hafi verið Jón Ósmann sjálfur sem hafi óbeint birt nafn drengsins, DV hafi neitað að birta yfirlýsinguna þar sem Jón Ósmann birti nafnið óbeint. Fréttin hafi verið unnin upp úr gögnum sem sýna samskipti lögfræðings móðurinnar við ráðuneytið.

Björn segir vonlaust að ræða við Jón Ósmann. „Í fyrsta símtali Jóns við Erlu Hlynsdóttur, aðstoðarritstjóra DV, þá má heyra Jón Ósmann vaða til , banka kröftulega á hurð sonar síns og krefjast þess að hann talaði við blaðamann sem hann fullyrðir að móðir hans hafi sigað á hann. Sú staða sem saklaus drengurinn var settur í var í meira lagi ógeðfelld og lýsir sjúku hugarástandi.“

Hér má lesa yfirlýsinguna í heild sinni.