Björn Ingi varar við leið stjórnvalda: „Enginn verður ánægður og allir tapa“

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans og höfundur bókarinnar Vörn gegn veiru, segir augljóst að komin er gjá á milli þings og þjóðar þegar kemur að sóttvarnarmálum. Þetta segir Björn Ingi í pistli sem birtist á vef Viljans í morgun.

Björn Ingi fer í nokkuð ítarlegu máli yfir atburði og umræðu síðustu vikna, til dæmis pistil sem Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði á Facebook-síðu sína um helgina.

„Af orðum Brynjars má ráða, að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafi gefið út nokkurs konar opinbert skotleyfi á fólk og krefjist nauðungarvistar að ástæðulausu og það sé þingmönnum að þakka að ekki hafi reynst lagagrundvöllur fyrir slíkum ráðstöfunum,“ segir Björn Ingi og bætir við að málið sé flóknara en svo. Reynslan hafi einfaldlega sýnt að fyrri útfærslur á sóttkví komufarþega hafi ekki virkað þar sem ekki fóru allir eftir þeim.

Björn Ingi nefnir svo að þvert á ráðleggingar sóttvarnalæknis hafi landið verið opnað fyrir ferðamönnum utan Schengen sem eru með mótefni og bólusettir og þurfa þeir ekki að fara í sóttkví. Hefur því verið spáð af erlendum fjölmiðlum að Ísland verði einn heitasti áfangastaður heims í sumar. Bendir Björn Ingi á að þetta hafi gerst þó sóttvarnalæknir hafi barist gegn þessu en hagsmunir ferðaþjónustunnar vegi augljóslega þungt.

„Það eitt og sér stórminnkar möguleikana á að Íslendingar geti átt sæmilega veirufrítt og frjálslegt sumar innanlands, enda aðeins lítill hluti þjóðarinnar komin með fulla bólusetningu. Allt of lítill miðað við það að ákveðið hafi verið að opna landið fyrir ferðamönnum,“ segir Björn Ingi sem óttast þessa leið stjórnvalda.

„Það blasir við að gera þurfi hlutina í réttri röð. Bólusetja fyrst og opna svo. Ekki öfugt, eins og reyndin er. Þetta þýðir að óbreyttu að enginn verður ánægður og allir tapa. Hætta á smitum verður fyrir hendi og ferðalög innanlands, samkomuhald og fleira verður áfram í láginni. Ef faraldurinn fer á flug verður Ísland síðri valkostur fyrir þá sem leita að öruggu umhverfi á tímum farsóttarinnar. “

Hann nefnir að komin sé upp skýr gjá milli þings og þjóðar.

„Almenningur vill fara varlega og treystir ráðgjöf sérfræðinganna, en þingmenn eru komnir með algjört óþol fyrir sóttvarnaráðstöfunum og ekki líður lengur sá dagur að talað sé ekki gegn þeim af kjörnum fulltrúum.“

Pistil Björns Inga má lesa í heild sinni hér.