Björk rassskellir Katrínu formann VINSTRI GRÁRRA

Björk Guðmundsdóttir hefur talað og sagt það sem margir hugsa. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, er ekki marktæk, stendur ekki fyrir neitt nema völd og vegtyllur.

Björk er ekkert að skafa utan af hlutunum. Hún segir Katrínu hafa svikið sig og aðra umhverfissinna. Hún hreinlega rassskellti hinn brosmilda forsætisráðherra.

Vinstri græn segjast standa fyrir vernd náttúrunnar. Samt sitja vinstri græn hjá í stærsta umhverfismáli samtímans, loftslagsmálum. Vinstri græn hafa sett loftslagsmálin og orkuskiptin í biðflokk. Þau hafa sett Ísland í biðflokk. Þau hafa sett fólkið í biðflokk. Allt til að sitja sjálf við kjötkatlana. Allt fyrir meint völd. Hjá vinstri grænum virðist náttúruvernd í dag vera eitthvað ofan á brauð.

Á síðasta kjörtímabili fóru vinstri græn með umhverfisráðuneytið. fenginn var framkvæmdastjóri Landverndar í það starf. Ekkert gerðist í heilt kjörtímabil. Umhverfismálin voru sett í uppáhaldsflokk vinstri grænna – biðflokkinn.

Í síðustu stjórnarmyndun, á tímum þegar þegar umhverfisráðuneytið hefur aldrei verið mikilvægara vegna loftslagsmála og annarra mikilvægra umhverfisþátta, sömdu vinstri græn það af sér. Katrínu Jakobsdóttur var bersýnilega svo mikið í mun að halda í forsætisráðherratitilinn að öllu öðru var fórnað fyrir það – umhverfismálum, heilbrigðismálum og stöðu forseta þingsins. Í staðinn fékk flokkurinn léttvægt félagsmálaráðuneytið, sem flestar fjaðrir hafa verið klipptar af, og svo sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gegn því að gjafakvótinn haldist hjá hinum fáu, stóru og ríku í sjávarútvegi, sem er nú raunar hornsteinn þessa stjórnarsamstarfs – eins og Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn vilja hafa það.

Katrín virðist fá sitt út úr því að geta mætt skælbrosandi á NATO-fundi, þó að hún sé andstæðingur NATO, og stillt sér upp til myndatök með leiðtogum NATO-ríkja í Evrópu. Svandís Svavarsdóttir situr svo í hlekkjum í Sjávarútvegsráðuneytinu og hefur ekki einu sinni döngun í sér til að koma í veg fyrir hvaladráp þó að það sé yfirlýst stefna vinstri grænna. Eins lætur hún hið ógeðfellda blóðmerahald viðgangast áfram þótt það sé ekkert annað en viðbjóðslegt dýraníð.

Vinstri græn hafa sagt skilið við umhverfisvernd með svo afgerandi hætti að listakona eins og Björk getur ekki orða bundist.

Lítið er nú orðið eftir af hinu græna í vinstri grænum.

- Ólafur Arnarson