Bjarni vill verða forsætisráðherra. Hvernig gengur það upp?

Á fjarfundi sem Sjálfstæðisflokkurinn hélt í gær var formaðurinn spurður hvort hugur hans stæði til að mynda ríkisstjórn á næsta ári.

Svör Bjarna Benediktssonar voru nú mjög skýr og afgerandi. Hann hefur fullan metnað til að leiða ríkisstjórn í kjölfar næstu kosninga. Þetta hefur vantað og margir hafa undrast að formaður stærsta flokksins hafi unað því að leyfa formanni sósíalista að gegna embætti forsætisráðherra með fulltingi Sjálfstæðisflokksins.

Ýmsir hafa óttast að Bjarni hygðist láta þetta ganga yfir sig og flokkinn eftir næstu kosningar. En vonandi er nú að verða þar breyting á. Fylgið hefur hrunið af Vinstri grænum samkvæmt skoðanakönnunum og mælist nú einungis helmingur af því sem flokkurinn hlaut í kosningunum fyrir þremur árum. Á sama tíma heldur Sjálfstæðisflokkurinn sínu fylgi nokkurn veginn.

Ólíklegt er að Vinstri græn muni eiga aðild að ríkisstjórn nema Katrín Jakobsdóttir fái að gegna embætti forsætisráðherra áfram.

Hrynji fylgið af Vinstri grænum með svipuðum hætti og kannanir sýna, verður að líta þannig á að kjósendur vilji flokkinn frá völdum og þar með Katrínu út úr ríkisstjórninni.

Verði úrslit Alþingiskosninganna á næsta ári í líkingu við síðustu skoðanakannanir þá gætu þingmenn skiptst svona á flokka:

Sjálfstæðisflokkur -17, Samfylking - 10, Viðreisn - 8, Framsóknarflokkur - 8, Miðflokkur - 7, Píratar - 7 og Vinstri græn - 6.

Samfylkingin og Píratar hafa lýst því ítrekað yfir að þeir vilji alls ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn.

Samkvæmt þessu hefði Bjarni tvo kosti til að mynda meirihlutastjórn: Með Framsókn og Miðflokki (32 þingmenn) eða með Framsókn og Viðreisn (33 þingmenn).

Í báðum tilvikum gæti orðið um öflugar ríkisstjórnir að ræða til að vinna þjóðina út úr veiruvandanum með skynsamlegum hætti.