Bjarni segir ekki í lagi hvernig komið sé fram við Brynju: „Óforsvaranlegt að ganga jafn langt gagnvart fólki og gert hefur verið“

Mál Brynju Bjarnadóttur, 65 ára einstæðrar konu og sjúklings, sem tjáði sig um ástand sitt á leigumarkaði í viðtali við Fréttablaðið í vikunni var rætt á Alþingi í dag. Í viðtalinu greindi Brynja frá því að leigufélagið Alma hefði í lok nóvember tilkynnt henni um 75 þúsund króna hækkun á leiguverði á íbúð hennar við Hverfisgötu.

„Nú kemur sannleikurinn loks upp á yfirborðið. Og það má þakka hugrökku fólki sem í örvæntingu sinni stígur fram og segir frá sínum hremmingum,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins á Alþingi í dag.

Hún spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hvað honum þætti um ástandið á leigumarkaði og hvort ekki væri kominn tími á neyðarlög til að verja heimilin „gegn þessum gegndarlausu og forhertu hækkunum sem dunið hafa á leigjendum og lántakendum?“

Bjarni svaraði og minntist á nokkrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í málaflokknum.

Hann tjáði einnig sína persónulega skoðun á máli Brynju, en hún er þessi: „Ég tel að það sé óforsvaranlegt að ganga jafn langt gagnvart fólki og gert hefur verið í þessu tiltekna dæmi.“

Hægt er að lesa nánar um málið á vef Fréttablaðsins.