Birta SMS sem Helgi Seljan hefur fengið: „Morgundagurinn verður erfiður, trúðu mér“

Jón Óttar Ólafsson, starfsmaður Samherja og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, er sagður hafa sent Helga Seljan, fréttamanni á RÚV, ítrekuð skilaboð, bæði í gegnum SMS og í gegnum Facebook-reikning eiginkonu sinnar. Kjarninn fjallar ítarlega um málið á vef sínum.

Auk þess að senda Helga skilaboð er Jón Óttar sagður hafa verið tíður gestur á Kaffifélaginu í miðborg Reykjavíkur til að hitta á Helga. Virðist tilgangurinn vera sá að hræða hann eða ógna honum.

Kjarninn bar frásögn Helga undir Björgólf Jóhannsson, annan forstjóra Samherja, sem sagði ljóst að atferli Jóns Óttars væri ekki í umboði fyrirtækisins. Segir í frétt Kjarnans að Björgólfi hafi virst vera brugðið.

Kjarninn birtir til dæmis skjáskot af skilaboðum sem Helgi fékk þann 10. ágúst síðastliðinn, eða daginn áður en fyrsti þáttur Samherja fór í loftið á YouTube. Helgi fékk skilaboðin frá Facebook-reikningi sem skráður er á eiginkonu Jóns Óttars.

„Mikið vona ég að þú vandir þig í framtíðinni, dómgreindarleysi þitt er svakalegt! Morgundagurinn verður erfiður trúðu mér. Þetta er sorglegt. Jóhannes Stefánsson plataði þig upp úr skónum.“

Þá hefur Helgi einnig fengið skilaboð úr símanúmeri sem skráð er á eiginkonu Jóns Óttars og er það sama og Jón Óttar svaraði í þegar Kjarninn freistaði þess að bera málið undir hann.

Þá segir í frétt Kjarnans að Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður á Stundinni, hafi fengið samskonar skilaboð frá Facebook-reikningi eiginkonu Jóns Óttars. Í einu slíku sagði til dæmis:

„Þú heldur áfram að ausa menn drullu eins og þér einum er lagið.... setur fram hverja lýgina á fætur annarri! Það verður gaman að fylgjast með því þegar þú verður tekinn til umfjöllunar😂“ 

Í samtali við Kjarnann segist Helgi vera meira en tilbúinn í að ræða málið efnislega en umrædd skilaboð séu annars eðlis.

„Ef Jón Óttar hefur sjálfur ekki skynbragð á því að þetta sé ekki leiðin til að eiga í samskiptum um efnisleg fréttaefni þá er vonandi einhver þarna hjá Samherja sem getur bent honum á fleiri leiðir.“

Frétt Kjarnans.