Birta: „Ef ég væri mamma hefði ég íhugað að skila þessu barni“

Fjölmiðlakonan Birta Björnsdóttir er frábær í sínu fagi enda alltaf haft mikinn áhuga á málefnum líðandi stundar.

Birta birti skemmtilegt skjáskot á Twitter-síðu sinni í gær af Facebook-færslu móður sinnar þar sem hún birti myndir af Birtu þegar hún var lítið barn. Í færslunni sagði móðir hennar:

„Hún Birta mín hefur alla tíð fylgst vel með þannig að starfið sem hún valdi hefur aldrei komið á óvart. Hún var rúmlega þriggja ára þegar hún spurði mig uppúr þurru „úr hverju dó Breznjev“ en hann var þá nýlátinn. Á myndunum er hún eins árs og niðursokkin í Neista, málgagn Fylkingarinnar. Mér sýnist viðtalið um andstöðuna innan ASÍ vekja talsverðan áhuga hjá henni.“

Birta slær á létta strengi í færslu sinni á Twitter og segir einfaldlega: „Ef ég væri mamma hefði ég íhugað að skila þessu barni.“

Rithöfundurinn Stefán Máni leggur orð í belg og segir: „Hver hefði trúað því að þetta barn yrði skemmtilegt seinna meir? En hér ertu, alveg hreint svona ljómandi skemmtileg!“

Birta svaraði að bragði og sagði meðal annars: „Ég komst að því að það er víst líf eftir Brezhnev.“