Birgitta segir þingræðið sýndarmennsku: „Alger aumingjaskapur“

„Mér er fyrirmunað að skilja af hverju þingið félst á að kippa sér úr sambandi og fjalla aðeins og um mál framkvæmdavaldsins. Ljóst er að þingræði er bara sýndarmennska ef það er fallist á að það sé ekki þörf á því nema til að stimpla risaaðgerðir frá ráðherraliðinu.“ Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, í færslu á Facebook.

Forsætisnefnd Alþingis samþykkti í síðustu viku, að tillögu Steingríms J. Sigfússonar forseta Alþingis, að fram að 20. apríl næstkomandi verði þingfundir einungis notaðir til fjalla um mál sem tengjast COVID-19 faraldrinum með beinum hætti. Á þetta að minnka líkur á smitum en samt tryggja að hægt sé að setja nauðsynleg lög ef svo ber undir.

„Framkvæmdavaldið hefur tekið öll völdin og það er ekki réttlætanlegt undir neinum kringumstæðum og afar ólýðræðislegt,“ segir Birgitta. „Nær hefði verið ef núverandi handhafar ráðherraembætta hefðu lagt sig fram til að vinna að þverpólitískum lausnum. Margt að því sem hér er kynnt til leiks til að bjarga okkur frá efnahagshruni er afar einkennilegt, þó svo að sumt sé svosem ágætlega útfært.“

Beinir hún orðum sínum einnig að stjórnarandstöðunni: „ENN virðast þó stjórnmálamenn hugsa meira um viðhald valda en að finna farveg samvinnu og því miður lét stjórnarandstaðan þetta bara yfir sig ganga. Alger aumingjaskapur.“

Nokkrar umræður hafa skapast um innlegg Birgittu. Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, svarar henni og segir: „Þú veist að mál eru unnin í nefndum? Þú veist að mál tóku miklum breytingum í meðferð Velferðarnefndar? Þú veist að Alþingi er hársbreidd frá því að verða óstarfhæft? Og ekki út af“aumingjaskap”?“

Birgitta segir að hún skilji að nú séu einstakir tímar: „Ég er alveg meðvituð um að þetta eru einstakir tímar og allt það en þessu mikilvægara er þegar upp er staðið að þær aðgerðir sem framkvæmdavaldið er nánast einhliða að fara út í, standist gagnrýni sem og tímans tönn.“