Birgir Örn: „Þetta snýst ekki um aumingjaskap eða væl“ - Mótfallinn farsóttarhúsi

„Þetta snýst ekki um að einhvern aumingjaskap eða væl hjá fólki sem vill ekki vera á sóttvarnarhóteli. Þetta snýst um ákveðna grundvallarreglu í stjórnsýslu samfélags okkar sem kallast meðalhófsregla.“

Þetta segir Birgir Örn Guðjónsson, oft kallaður Biggi lögga, í pistli á Facebook-síðu sinni. Um fátt hefur verið meira rætt undanfarna daga en farsóttarhús sem farþegar frá áhættusvæðum þurftu að gera sér að góðu að dvelja í, eða allt þar til héraðsdómur kvað upp úrskurð sinn í gær um ólögmæti þess.

Birgir Örn bendir á meðalhófsregluna sem kveður á að um að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Þess skuli þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

„Að leyfa fólki ekki að taka út sóttkví á eigin heimili heldur hoppa beint í harðasta úrræðið og neyða fólk til að greiða fyrir að dvelja á ákveðnum stað í ákveðinn tíma er gróft brot á þessari reglu. Slíkt lá alltaf fyrir,“ segir Birgir Örn sem furðar sig á því hversu margir virðast taka þessari mikilvægu reglu af mikilli léttúð. Segir hann að það hræði hann í raun.

„Fólk hrópar hátt út um allt að við verðum að fara þessa leið. Að það þurfi þá bara að breyta lögunum. Erum við í alvörunni orðin það hrædd að við erum til í að fórna svo stórum prinsip málum samfélagsins? Einn stjórnmálamaður sagði m.a. við mig að það vissu allir að hingað kæmi fólk sem ætlar ekki að virða sóttkví. Var hann þá væntanlega að meina að því væri nauðsynlegt að ganga svona langt. Ég nefndi þá við hann að hingað kæmi líka fólk sem ætlar að brjóta af sér. Hvernig eigum við að bregðast við því? Hvar ætlum við að draga línuna fyrst við erum byrjuð að losa hana í annan endann. Hvers konar samfélag viljum við halda?“

Birgir Örn segir að málið snúist ekki um hótelherbergi og þrjár máltíðir á dag fyrir 50 þúsund krónur, heldur grundvallarsamfélagsmynd sem fólk hefur barist fyrir í árhundruði.

„Ef við ætlum að byrja að leika okkur með slík réttindi þá hef ég allavega engan áhuga á að sinna því starfi sem ég sinni í dag. Þó svo að það sé kannski erfitt að sjá það þessa dagana þá er meira að berjast fyrir en bara veirufríu samfélagi (eitthvað sem sóttvarnarlæknir sagði að vísu eitt sinn ítrekað að væri óraunhæft). Við munum sigrast á þessari boðflennu og erum á góðri leið. Hverskonar samfélag sitjum við þá uppi með? Við verðum að halda þetta út, bæði í sótt og samfélagsvörnum.“