Biggi lögga: „Börn yngri en 13 ára hafa ekkert með samfélagsmiðla að gera“

Lögreglumaðurinn geðþekki Birgir Örn Guðjónsson, best þekktur sem Biggi lögga, segir að ungmenni undir 13 ára aldri eigi ekkert erindi á samfélagsmiðla.

„Ungmenni dagsins í dag eru undir ákveðnu álagi sem hefur aldrei þekkst í sögu mankyns. Þau vaxa úr grasi í almennri áheyrnarprufu alla daga ársins. Þau eru inn í herbergjum sínum, strætisvögnum, skólagöngum, þegar við skutlum þeim og nánast alls staðar með sýningu á því hvernig öðrum gengur. Þau fylgjast með fallegu, fyndnu, hæfileikaríku, sniðugu, kláru, uppátækjasömu, ríku og stundum frægu fólki sýna þeim hvernig á að gera þetta. Það er fáránleg pressa,“ segir Birgir á Facebook.

Hann segir að mörg ungmenni upphefji sig með því að niðurlægja aðra. „Lemja, lítillækka og leggja í einelti. Ég hef séð myndbönd að krökkum allt niður í 11 ára nota takta og tungutak sem eldri hafa sýnt þeim í gegnum slík myndbönd. Eitt sinn vorum við hrædd við ofbeldi í Hollywood kvikmyndum. Ef við óttuðumst áhrif þess, hversu miklu áhrifameira er ofbeldi jafnaldra í sama skóla eða næsta húsi?“

Birgir hefur verið að halda fyrirlestra og rætt við foreldra, kennara, starfsmenn félagsmiðstöðva, löggur, barnaverndarstarfsfólk og fleiri. Enginn viti hvað eigi að gera.

„Á einum fundinum sem ég var með fyrirlestur var rætt um þörfina fyrir nýju samfélagsátaki. Átaki svipuðu því og þegar samfélagið allt tók sig saman að sporna gegn unglingadrykkju á tíunda áratugnum. Það var tekið eftir því um allan heim og fólk er enn að spyrja hvað við gerðum. Við hefðum ekki getað gert það nema með þessari samstöðu. Það sýnir að við getum þetta. Þá var meðal annars ákveðið að setja á sameiginlegan útivistartíma. Það gerði foreldrunum auðveldara fyrir að setja mörk og börnunum auðvaldara að fylgja þeim. Þá gat enginn sagt „en það mega það allir hinir“. Núna þurfum við að gera það sama með samfélagsmiðla,“ segir Birgir.

„Í skilmálum flestra samfélagsmiðla kemur fram að þeir séu ekki leyfðir fyrir börn yngri en 13 ára. Það er fullkomlega eðlilegt. Börn yngri en 13 ára hafa ekkert með samfélagsmiðla að gera. Börn eiga að finna sig í sér sjálfum en ekki á samfélagsmiðlum. Við verðum að leyfa börnum að bíða með áheyrnarprufurnar. Þau eiga það skilið.“