Berg­þór hjólar í „freku konuna“ Sigur­borgu Ósk

Berg­þór Óla­son, þing­maður Mið­flokksins, fer ekki mjúkum höndum um Sigur­borgu Ósk Haralds­dóttur, For­mann skipu­lags- og sam­göngu­ráðs Reykja­víkur, í pistli í Morgun­blaðinu í dag.

Pistillinn ber heitið Freka konan og Borgar­línan og lýsir Berg­þór því í pistlinum hvernig „freka konan“ vilji þrengja að fjöl­skyldu­bílnum og þvinga borgar­búa inn í Borgar­línuna.

Öllu fórnað fyrir einkabílinn

Sigur­borg skrifaði í gær pistil undir yfir­skriftinni Einka­bíllinn er ekki fram­tíðin þar sem hún sagði ára­tugi frekra karla sem vildu fórna öllu fyrir einka­bílinn væru liðnir.

„For­maður skipu­lags- og sam­göngu­ráðs má eiga það að hún hefur viður­kennt og að því er virðist bein­línis hreykt sér af því að ætla að þvinga íbúa höfuð­borgar­svæðisins í Borgar­línuna,“ skrifar Berg­þór og segir það vera gert með því að tryggja færri bíla­ak­reinar og bíla­stæði.

For­dæma­laus frekja og yfir­gangur

„Það er ó­lík­legt að við­líka frekja og yfir­gangur hafi við­gengist á fyrri stigum hvað skipu­lags­mál höfuð­borgarinnar varðar. Öll meðul virðast leyfi­leg, þegar kemur að því að þrengja að fjöl­skyldu­bílnum,“ í­trekar Berg­þór.

Þá virðist hann sann­færður um að borgar­búar hafi engan á­huga á Borgar­línunni. „Vilji og val borgar­búa virðist ekki skipta borgar­full­trúann nokkru máli. Sam­fé­lags­verk­fræðin er alls­ráðandi og trúin á Borgar­línuna virðist trompa öll rök og raunar alla tengingu við raun­veru­leikann.“

Borgarlínan virðist ekki vera Bergþóri að skapi.
Mynd/Strætó

Ekki tekið mark á al­menningi

Lítil virðing formanns skipu­lags- og sam­göngu­ráðs endur­speglast í fjöl­mörgum málum að mati Berg­þórs. „Grens­ás­vegurinn var þrengdur, Hofs­valla­gata var þrengd, strætó­stoppi­stöð komið fyrir á miðri Geirs­götu, Haga­torg er ekki lengur hring­torg, batta­völlur fellur af himnum ofan og svona mætti á­fram telja. Fram­gangan gagn­vart flug­vellinum í Vatns­mýrinni er síðan kapítuli út af fyrir sig.“

Ekkert mark sé tekið á í­búum sem kvarta yfir því að ekkert mark sé tekið á um­kvörtunum þeirra eða á­bendingum.

Lítil vara­dekk ráða ferðinni

„Nú­verandi meiri­hluti Sam­fylkingarinnar í Reykja­vík, með öllum sínum vara­dekkjum, virðist ætla að setja undir sig hausinn og þvinga íbúa höfuð­borgarinnar inn í svo­kallaða Borgar­línu.“

Þetta gerist að sögn Berg­þórs í boði Við­reisnar. „Sem tók að sér að vera nýjasta vara­dekkið undir vagni borgar­stjóra.“

„Lítil veiklu­leg vara­dekk sem ætluð eru til þess eins að koma bif­reið á næsta dekkja­verk­stæði ganga undir á­kveðnu nafni. Það kemur á ó­vart að flokkur Bene­dikts Jóhannes­sonar taki að sér að vera í því hlut­verki.“