Benóný sefur varla á næturnar og vill breytingar: „Hvað finnst þér, kæri lesandi?“

„Ég bý í tundurduflabelti miðbæjarins. Og hvar er þetta belti, jú, það er þar sem vínveitingastaðir og næturklúbbar borgarinnar eru orðnir fleiri en staðirnir þar sem fólk býr,“ segir Benóný Ægisson, rithöfundur og íbúi í miðborginni, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

Í grein sinni vekur Benóný athygli á þeirri stöðu sem fylgir því að búa í næsta nágrenni við miðpunkt skemmtanalífs á Íslandi. Hann bendir á að svona hafi þetta þó ekki alltaf verið.

Tveir staðir þegar þau keyptu

„Þegar við fjölskyldan keyptum okkur hús á neðanverðum Skólavörðustígnum voru tveir veitingastaðir í grenndinni, Mokka og Prikið, sem lokaði klukkan sex. Nú eru fjórtán vínveitingastaðir innan 50 metra radíuss frá heimili okkar og nokkrir þeirra hávaðasamir næturklúbbar sem hafa opið fram undir morgun um helgar.“

Benóný dregur ekki fjöður yfir það að hann skilji vel þá sem hafa gaman af því að djamma öðru hvoru um helgar og ganga öskrandi um götur miðbæjarins til að fá útrás. Hann eigi hins vegar erfitt með að skilja nágranna sína sem búa fjarri „tundurduflabeltinu“ og verða aldrei varir við neitt. Telja meira að segja að hann ætti að flytja eitthvað annað ef hann þolir ekki ástandið.

„Það er dálítið sárt að þeim skuli ekki finnast við hafa neinn rétt þó við höfum verið hér fyrst, en það hefur verið búið í mínu húsi í 117 ár, en veitingastaðirnir komu flestir í kringum síðustu aldamót. Það eina sem við höfum farið fram á eru þau grundvallarmannréttindi að geta sofið á næturnar. Það er líka merkilegt að skyldurnar skuli vera okkar en ekki veitingamannanna, því enginn gerir kröfu um að þeir trufli ekki nágranna sína, sem þó er skylda þeirra samkvæmt 4. grein lögreglusamþykktarinnar sem bannar það að næturró borgaranna sé spillt.“

Á erfitt með svefn 120 nætur á ári

Benóný spyr hvers vegna þeim sem reka næturklúbba í miðbænum sé ekki gert skylt að einangra staði sína, lækka tónlistina og hafa jafnvel einhverja stjórn á gestum sínum.

„Það er krafa sem gerð er alls staðar í borgum sem við viljum bera okkur saman við og þar sem það að valda nágrönnum óþarfa ónæði getur orðið til þess að menn missa veitingaleyfið. Ég hef ekkert á móti því að fólk skemmti sér. Það má líka gera það fram á morgun, ef það er mér og öðrum að meinalausu. Það sem veldur mér leiðindum er að eiga erfitt með svefn svona 120 nætur á ári, nætur með 90-120 bassatrommuslögum á mínútu í sjö tíma á kvöldi og nóttu og þegar ég hugsa til þess veldur það mér furðu að ég hafi ekki verið borinn burt í spennitreyju fyrir löngu síðan þar sem ég nota hvorki svefnlyf né eyrnatappa. Það er sennilega til marks um hæfileika mannsins til að komast af í fjandsamlegu umhverfi.“

Benóný segist vekja athygli á þessu núna því eftir takmarkanir síðustu mánaða sé komið kjörið tækifæri til að endurskoða þetta fyrirkomulag, koma á samtali milli íbúa, yfirvalda og veitingamanna sem ekki eru allir ánægðir með þennan langa opnunartíma. Það sé enda dýrt að halda úti stað fram undir morgun þegar enginn mætir fyrr en eftir miðnætti.

„Reynsla síðustu mánaða sýnir að flestir eru sáttir við að mæta fyrr út á lífið og fara fyrr heim og ég tel að með útsjónarsemi gætu veitingamenn haft sömu tekjur. Væri ekki ráð að skoða það að breyta þessu ástandi á þann veg að stytta opnunartíma veitingastaða í íbúðahverfum og opna þá frekar næturklúbba fjarri þeim? Þannig að allir yrðu sáttir? Eða ætti ég bara að hætta að spilla gleði fólks og flytja til til Þorlákshafnar? Hvað finnst þér, kæri lesandi?“