Baráttuhópur beinir spjótum sínum að Símanum fyrir að streyma tónleikum Ingós: „Fyrirtæki sem er sama um þolendur“

Heitar umræður hafa skapast í Facebook hópnum Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu í kjölfar gagnrýni Onlyfans stjörnunnar Ingólfs Vals Þrastasonar á samskiptafyrirtækið Símann.

Ingólfur segir að með því að veita Ingólfi Þórarinssyni, betur þekktur sem Ingó veðurguð, tækifæri að streyma tónleikum sínum um helgina sé Síminn að sýna það í verki að þeim sé alveg sama um þolendur kynferðisofbeldis. Eina sem skipti þá máli sé hagnaður.

„„Umdeildur“ eins og það sé ekki búið að sýna nógu mikið fram á það að hann sé ógeð. Og það var fólk sem kærði hann. En hvað gerðist? Jú það var fellt niður,“ skrifar Ingólfur.

Forsvarsmenn Símans segja að ekki sé hægt að fara í manngreiningarálit þegar kemur að því að veita fólki þá þjónustu sem það óski eftir.
Fréttablaðið/Skjáskot

Ingólfur birti skjáskot af samtali við starfsmann Símans þar sem viðkomandi segir að fyrirtækið sé á engan hátt tengt verkefninu á annan hátt en að veita streymiþjónustuna um myndlykla til að þjónusta viðskiptavini sem best.

„Síminn veitir þessa þjónustu til allra tónleikahaldara sem eftir henni óska og við höfum engar forsendur til að hafna að þjónusta viðburði þar sem listamennirnir hafa hvorki verið formlega ákærðir né dæmdir fyrir lögbrot,“ segir í skilaboðunum.

Forsvarsmenn Símans viti að Ingó sé umdeildur, en ekki sé hægt að ritstýra þeim sem óska eftir þjónustunni.

Fleiri fréttir