Á­takan­leg reynsla Önnu Sifjar: „Eitt mesta á­fall sem hugsast getur“

20. október 2020
08:40
Fréttir & pistlar

Anna Sif Ingi­mar­dóttir missti eigin­mann sinn í fyrra. Hann var einn af þeim 39 einstaklingum sem sviptu sig lífi hér á landi árið 2019. Anna skrifaði færslu á Face­book-síðu sína um á­takan­lega reynslu sína og er ó­hætt að segja að færslan hafi vakið at­hygli.

Nú stendur yfir átak Geð­hjálpar um að geð­heilsa verði sett í for­gang innan heil­brigðis­kerfisins og alls sam­fé­lagsins. Anna skrifaði færsluna til að vekja at­hygli á stöðu geð­heil­brigðis­mála innan heil­brigðis­kerfisins og má segja að pottur sé víða brotinn í þeim efnum. Hún kom víða að lokuðum dyrum þegar eigin­maður hennar veiktist af al­var­legum geð­sjúk­dómi.

„Á­gætur sál­fræðingur kom til okkar fjórum dögum eftir þetta gríðar­lega á­fall og sagði okkur að þung­lyndi sé einn af al­gengustu sjúk­dómum í heimi og nú spyr ég; af hverju er ekki betur hlúð að fólki með þung­lyndi eða aðra geð­sjúk­dóma.“

Hún veitti Hring­braut góð­fús­legt leyfi til að birta færsluna sem má lesa í heild sinni hér að neðan.


Lífs­hættu­lega blæðandi sár!

Við vitum öll hvaða af­leiðingar það hefur í för með sér ef ekkert er að gert, því er brugðist við strax. Al­var­legum geð­sjúk­dómi má vel líkja við lífs­hættu­lega blæðandi sár og því þarf líka að bregðast við strax!

Ég er kona með á­takan­lega reynslu af því að eigin­maður minn og faðir barna minna veikist skyndi­lega af al­var­legu þung­lyndi og geð­rofi.

Ég er kona með á­takan­lega reynslu af því að leita hjálpar hjá heil­brigðis­kerfi okkar Ís­lendinga.

Ég er kona með á­takan­lega reynslu af því að hringja á geð­deild Land­spítalans í neyð og sagt að þar sé hjálpina ekki að finna, fyrst þurfi að tala við vakt­hafandi hjúkrunar­fræðing Land­spítalans.

Ég er kona með á­takan­lega reynslu af því að vera sagt af vakt­hafandi hjúkrunar­fræðingi að allra fyrst þurfi ég að koma honum til heimilis­læknis (Hvað er löng bið þar?).

Ég er kona með á­takan­lega reynslu af því að koma að lokuðum dyrum hjá geð­heil­brigðis­kerfi okkar.

Ég er kona með á­takan­lega reynslu af því að þurfa að halda öllum boltum á lofti, börnunum okkar, heimilinu, lífinu og sjúk­lingi með lífs­hættu­lega blæðandi sár og þurfti vöktun í margar vikur.

Ég er kona með á­takan­lega reynslu af því að leita allra hugsan­legra leiða til að fá hjálp fyrir fár­sjúkan mann sem svaf ekki svo vikum skipti og ekki ég heldur, mann sem var með miklar rang­hug­myndir, mann sem gat ekki lengur tekið á­kvarðanir, mann sem gat ekki lengur hugsað um börnin sín, mann sem hélt ekki lengur uppi sam­ræðum, mann sem var kominn í annan heim en við hin, mann sem hafði aldrei orðið mis­dægurt en var ekki lengur skugginn af sjálfum sér.

Ég er kona með á­takan­lega reynslu af því að þurfa að taka heil­brigðis­kerfið „aftan frá“ svo það sé nú bara sagt á grjót­harðri ís­lensku!

Ég er kona með á­takan­lega reynslu af því að biðja vini og vanda­menn og svo þeirra vini um hjálp og viti menn þá fyrst fór eitt­hvað að gerast. Komumst að hjá heimilis­lækni, geð­lækni og svo loks á geð­deildinni.

Ég er kona með á­takan­lega reynslu af því að öll þessi bar­átta við að fá hjálp varð til þess að ég og okkar fólk misstum trúna á okkar annars lofaða heil­brigðis­kerfi og reiðin ...já reiðin beinist í eina átt. Ég segi það bara; hel­vítis kerfið!

Hvers­konar þjónusta er þetta eigin­lega við fólk sem hefur greitt sína skatta og skyldur til sam­fé­lagsins í mörg ár? Leiðin var greiðari fyrir Hans og Grétu í ævin­týrinu sem lentu þó í klóm nornarinnar!

Nú er ár liðið frá því að maðurinn minn tók sitt eigið líf. Það voru þung skrefin að þeirri stundu að þurfa að segja börnunum okkar að pabbi þeirra væri dáinn. „Hvernig?“ var þá fyrsta spurningin. Ein­mitt, það var á­takan­legt að þurfa að segja það upp­hátt.

En nú er ég ein­stæð móðir sem geri mitt besta til að fleyta börnum okkar á­fram í gegnum þessa erfiðu lífs­reynslu. Því að missa ást­vin í sjálfs­vígi er eitt mesta á­fall sem hugsast getur og leiðin að betri líðan fyrir okkur hin er skrykkj­ótt.

Á­gætur sál­fræðingur kom til okkar fjórum dögum eftir þetta gríðar­lega á­fall og sagði okkur að þung­lyndi sé einn af al­gengustu sjúk­dómum í heimi og nú spyr ég; af hverju er ekki betur hlúð að fólki með þung­lyndi eða aðra geð­sjúk­dóma?

Þessi sál­fræðingur sagði einnig að það væri ekkert sem ég hefði sagt eða gert, ekki sagt eða ekki gert sem hefði getað breytt því hvernig fór. Ein­mitt, ég gerði allt sem í mínu valdi stóð og meira til með hjálp góðs fólks. Þó koma fram hugsanir eins og ef ég hefði verið frekari við kerfið?

Nú ári eftir bar­dagann mikla hefur mér verið boðið í hringinn aftur, Takk fyrir! Nú með barnið okkar sem hefur verið and­lega lamað í heilt ár. Við þurftum aftur á bráða­þjónustu að halda en nei allt kom fyrir ekki. Það þarf til­vísun! Það þarf fyrst að hitta heimilis­lækni til að fá til­vísun! Þegar ég hringi á heilsu­gæsluna til að fá tíma hjá heimilis­lækni til að fá til­vísun til geð­læknis, þá talaði ég við sím­svara sem gaf mér ýmsa val­mögu­leika þrisvar sinnum! Ég var á endanum ekki viss hvort ég hefði hringt rétt og skellti á.

Það sem var næst í stöðunni var bráða­mót­takan en þar þurfti ég að ryðjast á­fram grenjandi með frekju til þess að barninu mínu væri sinnt sam­dægurs. Og af hverju þurfti það til? Vegna þess að svona til­felli eiga betur heima á heilsu­gæslunni var svarið sem ég fékk.

Hvernig í ó­sköpunum stendur á því að flest heil­brigðis­starfs­fólk sem ég hef hitt síðast­liðið ár segir upp í opið geðið á mér að geð­heil­brigðis­kerfið ein­kennist af ráða­leysi og mann­eklu?

Ég sá ekki fyrir mér að ég ætti nokkurn tímann eftir að tjá mig opin­ber­lega um þessa lífs­reynslu en mér rann blóðið til skyldunnar því maðurinn minn er einn af þessum 39 og við krefjumst þess að geð­heilsa verði sett í for­gang!

Ég bið ykkur öll um þann stuðning að setja nafn ykkar við á­skorun 39.is því svona á þetta ekki að vera.

Virðingar­fyllst, Anna Sif

Deilið sögu minni að vild!