Ásmundur bjargar Framsókn í Reykjavík. En mun það duga?

17. janúar 2021
16:16
Fréttir & pistlar

Framsóknarmenn léku snjallan leik þegar þeir ákváðu að tefla Ásmundi Einari Daðasyni, ráðherra, fram í Reykjavík. Ásmundur hefur vakið jákvæða athygli á síðustu mánuðum en hið sama verður ekki sagt um suma aðra ráðherra í núverandi ríkisstjórn. Margir þeirra eru í mesta basli með málefni sín og stöðu. Nægir að nefna sem dæmi um það umhverfisráðherra, dómsmálaráðherra, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, menntamálaráðherra  - að ekki sé talað um allt klúðrið sem er á ábyrgð heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra.

Ásmundur nýtur vinsælda og virðingar. Flest bendir til þess að hann muni rífa til flokksins fylgi í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Ætla má að hann taka mest fylgi frá Miðflokknum í Reykjavík-Norður og einnig frá Vinstri grænum en margir muna eftir Ásmundi þegar hann var kjörinn á þing fyrir þann flokk vorið 2009. Pólitískur þroskaferill Ásmundar Einars hefur verið einkar gæfulegur. Það kom strax fram á fyrsta kjörtímabili hans þegar hann sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna og gekk í Framsókn. Það var farsælt skref hjá honum og síðan hefur leið hans í stjórnmálum legið beint upp.

Þó framsóknarmenn geti hrósað happi yfir þessu djarfa skrefi Ásmundar, þurfa þeir að fást við nokkur erfið vandamál þegar kemur að framboðum fyrir kosningarnar á þessu ári. Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, ætlar að bjóða sig fram í Reykjavík-Suður að nýju. Hún komst naumlega inn á þing í síðustu kosningum og var kjörin níundi þingmaður kjördæmisins. Í öllum skoðanakönnunum á yfirstandandi kjörtímabili hefur hún ekki verið talin ná kjöri að nýju. Nú á eftir að koma á daginn hvort Ásmundur muni afla henni fylgis í hinu Reykjavíkurkjördæminu. Hermt er að Lilja hafi óskað eftir því við Willum Þórsson þingmann flokksins í Suð-Vestur kjördæmi, að hann skipti við hana á sætum í komandi kosningum en hann mun hafa hafnað því. Þá héldu margir að Lilja biði sig fram fyrir norðan þegar upplýst var að Þórunn Egilsdóttir, sem leiddi lista flokksins þar í síðustu kosningum, léti af þingmennsku vegna veikinda. En Lilja ákvað að stíga ekki það skref.

Lilju Alfreðsdóttur hefur ekki tekist að afla sér virðingar í ráðherratíð sinni. Hún hefur gefið stór loforð og haft um þau enn stærri orð. Því miður hafa efndir yfirleitt ekki fylgt orðum hennar. Það gæti átt eftir að koma henni í koll þegar nær dregur kosningum. Þá hafa margir Framsóknarmenn áhyggjur af því að leiðtogar flokksins í norðurkjördæmunum verði ekki nógu öflugir þegar Ásmundur er kominn suður og Þórunn er hætt. Hún hefur verið formaður þingflokks Framsóknar en hefur því miður þurft að glíma við erfið veikindi.

Fróðlegt verður að sjá niðurstöður næstu skoðanakannana varðandi ætlað fylgi Framsóknar. Gera má ráð fyrir að fylgi flokksins aukist verulega í Reykjavík-Norður en stóra spurningin er hvernig það muni þróast í sumum öðrum kjördæmum í kjölfar þessara breytinga.