Ás­mundi brugðið: Lánið hækkaði um 400 þúsund á sex mánuðum

Ás­mundur Frið­riks­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, kallar eftir sögum fólks sem glímir við ó­kleif skulda­fjöll vegna marg­földunar smá­lána sem bjóðast á Ís­landi.

Ás­mundur skrifaði færslu um þetta á Face­book í gær þar sem hann vakti at­hygli á máli ein­stak­lings sem farið hefur illa út úr smá­lánum.

„Smá­lán geta farið með líf fólks. Ég þekki dæmi þess að á nokkrum vikum, mesta lagi mánuðum fer fjár­hagur fólks úr því að vera þungur í það að verða ó­við­ráðan­legur. Baggi sem fer með og tekur líf fólks,“ segir Ás­mundur.

Ein­stak­lingurinn sem Ás­mundur að­stoðar tók rúmar 200 þúsund krónur í ellefu lánum, eða 20 þúsund krónur í hvert sinn.

„Í dag, 6 mánuðum síðar stendur skuldin í 615.000 krónum. Þessu til við­bótar er við­komandi með um 200.000 kr. hjá öðru smá­lána­fyrir­tæki. Núna 6 mánuðum síðar skuldar við­komandi 803.000 krónur. Skuld sem er úti­lokað að hann geti greitt.“

Ás­mundur kallar eftir því að fólk sem glímir við sams­konar vanda setji sig í sam­band. Vill hann láta reyna á það hvort þetta fólk eigi virki­lega engan rétt.

Hann segir að ein­stak­lingum sem enga mögu­leika hafa á að greiða aftur þessi lán vegna lágra tekna sé samt lánað og lánað þangað til allt er komið í skrúfuna og rúm­lega það.

„Lána­fyrir­tækin hafa beinan að­gang að launa­reikningum við­komandi í bönkum og í hvert sinn sem ein­hver peningur kemur inn standa smá­lána­fyrir­tækin vaktina og taka út allt sem inni er fyrir skuldum við­komandi. Langar að fá skila­boð á mess­en­ger um þá sem vilja deila með mér stöðunni en ég hyggst skoða þessi mál gagn­vart lána­fyrir­tækjunum. Látum reyna á hvort þetta fólk eigi virki­lega engan rétt.“

Í sam­tali við DV í gær sagðist Ás­mundur þekkja nokkur dæmi um ein­stak­linga sem farið hafa illa út úr smá­lánum.

„Þetta eru oft okkar minnstu bræður og systur. Ég þekki raunar dæmi um par sem fékk lán hátt í milljón hjá banka þar sem annað þeirra var greiðandi en hitt á­byrgðar­maður. Hvorugt hafði þroska til að leggja mat á við­skiptin en lánið var veitt og svo fór það sína hefð­bundnu inn­heimtu­leið.“

Hann sagði að ein­stak­lingurinn sem hann að­stoðar nú hafi ekki þroska til að meta af­leiðingar lán­töku.

„Hann missti sig í jóla­mánuðinum, langaði að kaupa jóla­gjafir handa mömmu sinni, bróður sínum og frænd­syst­kinum. Svo hefur hann undir­gengist að þessi fyrir­tæki hafi að­gang að launa­reikningnum hans! Nokkuð sem mér fyndist að ætti ekki að vera hægt. Þetta er flottur strákur sem vinnur með sínum sjúk­dómi en þessi lán eru orðin að fjalli sem hann ræður ekki við,“ sagði hann við frétta­vef DV.

Smálán geta farið með líf fólks. Ég þekki dæmi þess að á nokkrum vikum, mesta lagi mánuðum fer fjárhagur fólks úr því að...

Posted by Ásmundur Friðriksson on Sunnudagur, 5. júlí 2020