Áslaug Arna afdráttarlaus: 8 ára fangelsi fyrir að byrla

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra var mjög afdráttarlaus þegar hún var spurð út í byrlanir á skemmistöðum höfuðborgarinnar í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hávær umræða er um byrlunarfaraldur, eru dæmi utan úr heimi að konur séu stungnar í stað þess að eitri sé laumað út í drykk.

Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi Bankastræti Club, segist hafa séð byrlun á djamminu með eigin augum.

Áslaug Arna segir þetta nú þegar bannað með lögum:

„Þetta er auðvitað mjög alvarleg háttsemi og hefur verið skoðað með reglulegum hætti hvort það þurfi að bregðast við í löggjöfinni. Ég held að núna þurfum við að skoða verklagið. Löggjöfin tekur ágætlega á þessu, en það þarf auðvitað alltaf að skoða hegningarlögin í takti við tímann, hvort sem það eru breytingar á kynferðislegri friðhelgi eða umsáturseinelti sem tekur betur á þeirri háttsemi sem við erum að sjá í samfélaginu okkar,“ sagði hún.

„Í dag ætti þetta að falla undir ýmis ákvæði hegningarlaganna meðal annars 220. grein sem segir að hver sem kemur manni í það ástand að hann sé án bjargar getur sætt fangelsi í allt að átta árum. Vandinn við þessi brot tengist rannsókninni, sönnunarfærsluna, hver er gerandinn, að leita að réttu efni þegar próf er tekið og að fólk hafi aðgengi að því að fara í þessi próf.“