Ásgeir þarf að víkja

Ásgeir Jónsson, bankastjóri Seðlabanka Íslands, hefur mislesið stöðu mála með svo afgerandi hætti að mikilvægt er að hann hverfi úr embætti án tafar. Hann ber höfuðábyrgð á vanhugsaðri stýrivaxtahækkun í vikunni sem gengur þvert á fyrri yfirlýsingar bankans og hleypir kjarasamningum í uppnám.

Staðan á vinnumarkaði er ákaflega viðkvæm. Launþegaforystan og samtök vinnuveitenda voru í viðræðum undir handleiðslu ríkissáttasemjara þegar hin óvænta hækkun stýrivaxta var tilkynnt. Við það var fótum kippt undan samningsferlinu enda þótti þetta útspil Ásgeirs Jónssonar fullkomlega galið. Vaxtahækkuninni má helst líkja við að mólótoff-kokkteil sé kastað inn um glugga á íbúðarhúsi. Tilraun til að ná skammtímasamningi strandaði um leið. VR hefur slitið viðræðum við vinnuveitendur vegna þessa.

Ásgeir Jónsson birtist svo í fjölmiðlum og sýnir af sér valdsmannslegan hroka. Hann kennir almenningi í landinu um verðbólguna, gagnrýnir ferðalög landsmanna og aðra einkaneyslu. Heldur þessi maður í alvöru að umbjóðendur VR og Starfsgreinasambandsins standi fyrir taumlausum ferðalögum og hömlulausri neyslu? Heldur þessi maður að hann sé skömmtunarstjóri í sovésku umhverfi?

Haft var eftir þingmanni sem á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis: „Vaxtaaðgerðir Seðlabankans eru verri en verðbólgan sjálf.“ Óhætt er að taka undir þau orð.

Trúverðugleiki Seðlabanka Íslands er fokinn út í veður og vind. Aðilar vinnumarkaðarins munu ekki geta lokið mikilvægu verki sínu og samið nema andrúmsloftið verði hreinsað.

Það gerist vart nema Ásgeir Jónsson verði látinn víkja. Hann og aðrir ábyrgðarmenn peningastefnunnar eru sjálfstætt vandamál íslenskrar þjóðar sem bregðast verður við án tafar. Persóna hans er ekki stærri en þjóðarhagur.

- Ólafur Arnarson