Ásgeir Jónsson gestur Jóns G.: Eitt það mikilvægasta við starfið er að halda „sönsum“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er gestur í viðskiptaþætti Jóns G.í kvöld. Þeir koma víða við í spjalli sínu en Ásgeir hefur gegnt starfi seðlabankastjóra í um eitt ár og hefur þótt koma með ferska vinda inn í bankann. Hann hefur áhuga á að breyta bankanum og fjölga tækjum hans til að takast á við markmið um stöðugleika og geta ævinlega staðið undir væntingum fólks og atvinnulífsins til bankans þannig að eina tækið sé ekki stýrivextir.

Spurður um fyrsta árið í starfi, svarar Ásgeir því m.a. að eitt það mikilvægasta við starfið sé að halda „sönsum“; halda ró sinni – enda er ábyrgðin mikil sem fylgir starfinu. Hann sækir orku og eldmóð í hreyfingu utanhúss; hleypur á hverjum degi og gengur reglulega á fjöll.

Þá ræða þeir Jón G. um gengi krónunnar, hvort hún eigi að vera veik eða sterk á tímum kreppu eins og er núna. Ásgeir segir mikinn eðlismun á þessari kreppu og þeim fyrri. Það stoði lítið að fella gengið til að skapa fleiri störf í útflutningsgeiranum,, eins og ferðaþjónustunni, því þessi kreppa sé af allt öðrum toga og framboð starfa og fyrirtækja í ferðaþjónustunni við þessar aðstæður miklu meira en nóg. „Hagvöxturinn fer strax af stað þegar kórónaveiran er að baki og ferðaþjónustan tekur við sér,“ segir Ásgeir.

Þátturinn er á dagskrá kl. 20:30 í kvöld á Hringbraut. Spennandi þáttur.