Arfleifð Bjarna eftir 13 ára formennsku

Við upphaf landsfundar Sjálfstæðisflokksins, eftir meira en fjögurra ára hlé, er full ástæða til að meta arfleifð Bjarna Benediktssonar eftir 13 ára formennsku í flokknum. Það er vissulega fróðlegt og mikilvægt að draga upp þessa mynd núna, hvort sem komandi landsfundur markar endalok Bjarna á formannsstóli eða endurnýjað umboð til tveggja ára í viðbót.

Flestir sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum þykjast greina mikla þreytu og leiða í fari formanns Sjálfstæðisflokksins. Þarf það ekki að koma á óvart því 13 ára vakt í svo erilsömu embætti er aldrei leikur einn, ekki síst þegar illa gengur og fylgi flokksins eykst ekki í neinu samræmi við væntingar og kröfur dyggra flokksmanna. Í umróti síðustu sólarhringa, eftir að fram kom að Guðlaugur Þór Þórðarson ráðherra stefni á formannsframboð á landsfundinum, hafa flotið upp fregnir af fléttu sem talið er að Bjarni hafi haft í undirbúningu um skeið. Hermt er að hann hafi ráðgert að koma öllum á óvörum á landsfundinu, tilkynna um brottför sína úr stjórnmálum, leggja til við landsfundinn að núverandi varaformaður, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, yrði kjörin formaður og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir varaformaður. Þessi saga gengur nú fjöllum hærra í flokknum en er ennþá óstaðfest. Í utanríkisráðuneytinu er sendiherraembætti í Wahington haldið opnu og mun Bjarni Benediktsson hafa mátað sig í það.

Formannsframboð Guðlaugs Þórs gerir þessa ráðagerð að engu. Landsfundarfulltrúar munu nú þurfa að kjósa um formann - nema svo ólíklega vilji til að þeim Bjarna og Guðlaugi Þór takist að semja um einhverja niðurstöðu sem ómögulegt er að geta sér til um á þessari stundu hver yrði.

En hver er arfleifð Bjarna Benediktssonar?

  1. Í formannstíð hans er Sjálfstæðisflokkurinn að festast í fylgi á landsvísu sem liggur á bilinu 20 til 25 prósent. Í nokkra áratugi á undan valdatíð Bjarna var fylgið yfirleitt á bilinu 35 til 40 prósent. Mest fór fylgi flokksins í 42,7 prósent vorið 1974 í formannstíð Geirs Hallgrímssonar. Hrunið árið 2008 hefur oft verið notað Bjarna til afsökunar en hann leiddi flokkinn sem formaður í kosningunum 2009 þegar fylgi hans hrundi úr 36,6 prósent árið 2007 og niður í 23,7 prósent. Hruninu var kennt um enda hlaut Sjálfstæðisflokkurinn mikla gagnrýni vegna verka sinna í aðdraganda hrunsins, réttmæta eða ósanngjarna gagnrýni. En í síðustu alþingiskosningum haustið 2021 voru liðin 13 ár frá hruni og því var ekki lengur hægt að skýla sér á bak við afleiðingar þess. Í þeim kosningum hlaut Sjálfstæðisflokkur Bjarna einungis 24,4 prósenta fylgi. Með öðrum orðum þá hafði fylgið einungis aukist um 0,7 prósent frá erfiðu kosningunum vorið 2009. Það er skýrasti mælikvarðinn á árangursleysi Bjarna Benediktssonar á formannsferlinum. Þá töldu margir flokksmenn að fullreynt væri um viðunandi árangur.
  2. Bjarni Benediktsson hefur fengið harða gagnrýni á sig vegna sölu á 22,5 prósent eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka í mars. Útbreidd er sú skoðun að rétt hafi verið að selja eignarhlutinn en framkvæmd sölunnar er gagnrýnd. Bjarni ber pólitíska ábyrgð á söluferlinu þó að framkvæmdin hafi verið á höndum Bankasýslu ríkisins sem leidd er af dyggum stuðningsmanni Bjarna, Lárusi Blöndal lögmanni. Ákveðið var að fela Ríkisendurskoðun að taka saman skýrslu um söluna sem átti að koma út í júní á þessu ári. Skýrslan er ókomin og þykir það vera hið vandræðalegasta mál og mun ekki hjálpa fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins á landsfundi um næstu helgi.
  3. Þá hafa menn átt mjög erfitt með að skilja vanhugsað útspil Bjarna vegna skulda ÍL-sjóða, gamla Íbúðalánasjóðs. Hann sló því nýlega fram að eigendur skuldabréfa sjóðsins, sem ríkið er í ábyrgð fyrir, eigi nú að gefa eftir stóran hluta skuldabréfaeignar sinnar vegna sjóðsins. Að mestu er um að ræða lífeyrissjóði landsmanna – kjósendanna – sem ættu þá að létta jafnvel mörg hundruð milljörðum króna af ríkissjóði. Lífeyrissjóðunum er það óheimilt samkvæmt lögum og því er hér um algert frumhlaup fjármálaráðherra að ræða. Ekki batnar staða Bjarna við þessa misheppnuðu aðgerð.
  4. Stuðningsmenn Bjarna Benediktssonar hafa talið honum til tekna að halda Sjálfstæðisflokknum við völd í ríkisstjórn. Á13 ára formannsferli hans hefur flokkurinn verið 4 ár í stjórnarandstöðu en 9 ár í ríkisstjórn. Á þessum tíma hefur Bjarni verið 8 ár fjármálaráðherra og eitt ár forsætisráðherra. Fimm af þessum níu árum hefur flokkurinn verið aðili að vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur. Mörgum sjálfstæðismanninum svíður það sárt að flokkurinn hafi leitt formann sósíalista til öndvegis í ríkisstjórn í fyrsta skipti í Íslandssögunni. Margir munu aldrei fyrirgefa það. Bjarni leiddi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í tæpt ár sem forsætisráðherra. Stjórnin sprakk út af nánast engu, vandræðagangi sem rakinn var til fjölskyldu Bjarna og klaufaskapar Sigríðar Andersen sem þá var dómsmálaráðherra. Bent hefur verið á að Bjarni hafi lítið sinnt því að halda þeirri ríkisstjórn saman eins og jafnan þykir vera lykilverkefni forsætisráðherra. Sumarið 2017 var hann lítið við störf í ráðuneytinu en sagður vera mikið við laxveiðar, ýmis ferðalög innanlands og utan og að sinna flestu öðru en landsstjórninni. Þegar sumri hallaði sprakk svo ríkisstjórnin upp úr engu. Haft var eftir Davíð Oddssyni út af þessu að hann skildi þetta illa því að þegar hann hafi verið forsætisráðherra í 13 ár hafi verið litið á það sem fullt starf!
  5. Fjölmargt fleira mætti nefna sem Bjarni hefur verið gagnrýndur fyrir. En hér verður látið nægja að á vakt hans hefur ríkisbáknið þanist meira út en dæmi eru um áður. Hann gerir fátt til að hamla gegn útþenslustefnu Vinstri grænna sem vilja sjá ríkisbáknið bólgna. Sjálfstæðisflokkurinn lætur það viðgangast og er greinilega búinn að gleyma sínu gamla og góða slagorði BÁKNIÐ BURT. Nú fær báknið bara að dafna. Ríkisskuldir aukast og búið er að leggja fram fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár með 90 milljarða halla. Það er mikið metnaðarleysi þegar hagvöxtur er góður. Ekki er lengur hægt að kenna veiruvandanum um, einungis metnaðar- og stjórnleysi. Öðrum er ætlað að greiða fyrir sóun og uppsafnaðar ríkisskuldir, næstu ríkisstjórn.

- - -

Ekki er arfleifð Bjarna Benediktssonar glæsileg.

Listinn gæti verið miklu lengri. En hér verður látið staðar numið enda eru þau atriði sem hér eru talin svo stór og alvarleg að ekki þarf að koma á óvart þó að mikil ólga kraumi í flokknum sem leiði á endanum til þess að stórir hópar trúnaðarmanna flokksins taki höndum saman um að knýja fram breytingar.

Eftir rúma viku sjáum við hvernig það endar. Ef til vill breytist ekki neitt. Ef til vill tekur nýr maður við formennsku í Sjálfstæðisflokknum.

- Ólafur Arnarson.