Anna Tara: „Fyrir suma er þetta spennandi Twitter um­ræða en fyrir aðra er þetta bók­staf­lega dauðans al­vara“

Anna Tara Andrés­dóttir, doktors­nemi í heila-, hugar­starf­semi og hegðun við Há­skólann í Barcelona þar sem hún skoðar sér­stak­lega ADHD hjá konum, segir mikil­vægt að auka skilning fólks á ADHD lyfjum.

„Reglu­lega koma upp sam­fé­lags­legar um­ræður um ADHD lyf. Fyrir suma er þetta spennandi Twitter um­ræða en fyrir aðra er þetta bók­staf­lega dauðans al­vara. Til að auka þekkingu og skilning um þessi mál er hér saman­tekt rann­sókna um verndandi á­hrif ADHD lyfja sem fólk getur haft í huga næst þegar þessi mál eru til um­ræðu. Fyrst skal tekið fram að virkni og öryggiA­DHD lyfja er vel þekkt og fjöldi rann­sókna sýna verndandi á­hrif lyfja fyrir á­hættu­þáttum ADHD,“ skrifar Anna Tara í greiná Vísi.is

Hún listar upp stað­reyndir sem eru studdar af rann­sóknum en hlekkina má finna í greininniá Vísi.

Slysa­hætta:

 • Lífs­líkur fólks með ADHD eru á­ætlaðar um 9-13 árum styttri og er hvat­vísi stór hluti út­skýringarinnar.
 • Yfir­lits­grein sýndi að börn og ung­lingar með ADHD voru í 50% meiri á­hættu á slysum.
 • Dönsk rann­sókn fann að slys minnkuðu um 30-40% hjá 10 og 12 ára börnum sem tóku ADHD lyf.
 • Sænsk rann­sókn fann 70% lægri tíðni á heil­skaða (traumatic brain injury) á tíma­bilum sem börn og ung­lingar tóku ADHD lyf.
 • Önnur rann­sókn sýndi að tíðni bein­brota var 60% hærri hjá stelpum með ADHD og 40% hærri hjá strákum. Hins vegar minnkaði tíðni bein­brota rúm­lega 20% með ADHD lyfjum.
 • Tíðni bruna­sára var 57% lægri hjá börnum og ung­lingum sem tóku ADHD lyf í meira en þrjá mánuði.


Um­ferðar­slys:

 • Sænsk rann­sókn fann að ADHD jók tíðni al­var­legra um­ferðar­slysa um 55% hjá konum og 53% hjá körlum. ADHD lyfja­notkun dró úr þessari tíðni um 58% hjá karl­mönnum en því miður voru niður­stöður hjá konum ekki mark­tækar. Hins vegar var önnur rann­sókn sem sýndi að tíðni mótor­hjóla­slysa minnkaði um 42% hjá konum og 38% hjá körlum á tíma­bilum sem ADHD lyf voru notuð.

Of­beldi í nánum sam­böndum:

 • Þar sem hefð­bundin með­ferð fyrir ger­endur of­beldis í nánum sam­böndum þykir ekki virka nægi­lega vel var gerð rann­sókn þar sem ger­endum með ADHD voru einnig gefin ADHD lyf.
 • Tíðni líkam­legs og and­legs of­beldis í nánum sam­böndum minnkaði um 24%, lög­reglu­af­skipti vegna of­beldis í nánum sam­böndum minnkaði um 10% og dómar um 5%.

Dánar­tíðni:

 • ADHD fylgir 30% hærri tíðni á til­vikum sem tengjast sjálfs­vígum (suicide rela­ted e­vents). Þeim til­vikum fækkaði um 20% á tíma­bilum þar sem ADHD lyf voru notuð.
 • Önnur rann­sókn fann að tíðni sjálfs­vígs­til­rauna lækkaði um 60-70% með notkun ADHD lyfja hjá börnum undir 18 ára aldri.
 • Þegar dánar­tíðni af öllum or­sökum var skoðuð fannst að ADHD lyf lækkuðu þessa dánar­tíðni um 20% hjá 4-17 ára börnum.

Vímu­efna­notkun:

 • Yfir­lits­grein fann að fólk með ADHD væri meira en tvö­falt lík­legra til að þróa með sér vímu­efna­vanda­mál.
 • Önnur rann­sókn fann að ADHD lyf drógu úr notkun á­vana­bindandi efna um 30%.
 • Fyrir for­eldra sem hafa verið í vafa um hve­nær sé góður tími fyrir börn þeirra að byrja á ADHD lyfjum þá er hér fín rann­sókn sem fann að börn sem tóku lyf fyrir 9 ára aldur og tóku þau í meira en 6 ár höfðu lægstu tíðni á notkun á­vana­bindandi efna. Því seinna og því styttra sem börn og ung­lingar tóku lyf því meiri varð notkun á­vana­bindandi efna.

Glæpa­tíðni:

 • Talið er að um 25% af fólki í fangelsum séu með ADHD.
 • Dönsk rann­sókn fann að fólk greint með ADHD í æsku hafði hlotið dóm tvö­falt oftar og verið fangelsað næstum þre­falt oftar. Einnig flokkuðust ein­staklingar með ADHD sem sí­brota­fólk 20% oftar. Á þeim tíma­bilum sem fólk tók ADHD lyf lækkaði tíðni þess að hljóta dóm um 20% og tíðni fangelsunar um 30%. ADHD lyfja­notkun fylgdi einnig lækkun á tíðni ýmissa annarra brota svo sem of­beldi (40%), eigna­spjöll (40%), akstur undir á­hrifum vímu­efna (50%) og glæpum tengdum vímu­efna­neyslu (30-40%).

Sam­fé­lags­legur kostnaður vegna ADHD:

 • Árið 2020 sýndi dönsk rann­sókn að hver manneskja með ADHD kostaði sam­fé­lagið um 3,2 milljónir króna á ári.
 • Önnur dönsk rann­sókn bar saman syst­kini, þar sem annað var með ADHD og hitt ekki, og fann að ADHD syst­kinin kostuðu sam­fé­lagið um 2,8 milljónum meira árið 2010. Hærri kostnaður var meðal annars vegna þess að þau greiddu minni skatt, fengu oftar bætur, notuðu oftar heilsu- og fé­lags­þjónustu, frömdu fleiri af­brot og svo fram­vegis.

Fleira:

 • ADHD lyfja­notkun til lengri tíma jók líkur á að sænskir nem­endur kæmust inn í fram­halds­skóla um 50%.
 • Rann­sókn nokkur fann 40% lækkun á tíðni þung­lyndis hjá þeim sem tóku ADHD.
 • Lang­tíma­notkun ADHD lyfja dró úr þungunum um 30% hjá ung­lings­stúlkum með ADHD.
 • Tíðni kyn­sjúk­dóma lækkaði um 30-40% sam­hliða ADHD lyfja­notkun (engu að síður má fólk með ó­með­höndlað ADHD gefa blóð en ekki hommar).
  „Allir sem hljóta ADHD greiningu eða eiga börn með ADHD ættu að fá upp­lýsingar um verndandi á­hrif ADHD lyfja til að geta tekið upp­lýsta á­kvörðun um hvað sé þeim eða börnunum þeirra fyrir bestu.

„Það er ekki fé­lags­lega sam­þykkt að láta í ljós kyn­þátta­for­dóma eða segja mann­eskju í hjóla­stól að hún þurfi ekki á hjóla­stól raun­veru­lega að halda. Ein­hverra hluta vegna er þó sam­fé­lags­lega sam­þykkt að tala niður til fólks með ó­sýni­lega röskun,“ skrifar Anna.

„Skortur af ADHD sér­fræðingum hér­lendis getur leitt til þess að rétt­mæti ADHD greininga sé á­bóta­vant. Það leiðir til þess að sam­tímis sé til fólk sem þarf ADHD greiningu en fær hana ekki og fólk sem þarf ekki greiningu en fær hana þó ("over­diagnosed" og "under­diagnosed"). Því heyrast oft tvær mis­munandi skoðanir eða pólar; annars vegar á­hyggjur af því að fólk með ADHD hafi ekki nægi­legt að­gengi að lyfjum og hins vegar að fólki séu gefin lyf sem er ekki með ADHD. Báðar raddir eru rétt­mætar. Með því að auka rétt­mæti ADHD greininga er hægt að koma til móts við þarfir allra. Hags­munir annars þurfa ekki að vera á kostnað hins.“

Anna segir að yfir­völd hafa þó á­kveðið að líta fram­hjá mikil­vægi rétt­mætra greininga og hafa í staðinn fækkað ADHD sér­fræðingum og sett fólk á tveggja ára bið­lista eftir ADHD greiningu.

„Þannig taka þau með­vitaða á­kvörðun um að auka fíkn, af­brot, slys, sjálfs­víg, of­beldi í nánum sam­böndum og fleira. Þar að auki er sam­fé­lags­lega mun ó­dýrara að veita fólki með ADHD með­ferð. Hve­nær ætla yfir­völd að fjölga ADHD sér­fræðingum og stytta bið­lista?“ skrifar Anna að lokum.