Anna Hildur: Íslenskt samfélag gegnsósa í áfengi – Varhugaverð þróun hjá eldra fólki

„Við sjáum að margir pósta myndum af sigrum þegar þeir ná á fjalls­tind með því að lyfta glasi. Það eru ótal myndir úti um allt þar sem fólk fagnar sigrum með á­fengi. Með þessu er búið að tengja á­fengis­neyslu við heil­brigðis­við­burði, sem orkar vægast sagt mjög tví­mælis.“

Þetta segir Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, í mjög svo athyglisverðu viðtali í Fréttablaðinu í dag. Þar er fjallað um áfengisneyslu eldri borgara hér á landi en af innlagnartölum á Vogi má sjá tæpa tvöföldun í dagdrykkju 61 árs og eldri sem leita sér aðstoðar á tíu árum. Árið 2011 sögðust um 5% drekka hvern dag en í fyrra var hlutfallið 9%.

Í viðtalinu segir Anna Hildur að áfengi sé alltumlykjandi í þjóðfélaginu. Neysla þess sé í raun upp­hafin við öll tæki­færi á sama tíma og æ fleiri mið­aldra Ís­lendingar og eldri borgarar á­netjist á­fengis­fíkn með ömur­legum af­leiðingum.

Í fréttinni bendir Anna Hildur á að fólk á vinnumarkaðsaldri njóti aðhalds af vinnunni; þetta fólk þurfi gjarnan að vakna snemma og vera í sæmilegu standi. Við starfslok geti skapast hætta hjá þeim sem áttu í vanda með áfengi en náðu að stemma sig af vinnunnar vegna.

„Þá hverfa oft ýmsar skyldur og hömlu­leysið tekur við. Á­fengis­neyslan fer úr böndunum og af­leiðingarnar geta orðið hrika­legar,“ segir hún.

Á sama tíma og ágætur árangur virðist hafa náðst varðandi áfengisneyslu ungmenna þykir þróunin í efri aldurshópum varhugaverð.

„En það er hálf­gert tabú að ræða þessi mál. Ein á­stæðan er þessi rosa­lega á­fengis­dýrkun í sam­fé­lagi sem stundum virðist hrein­lega gegn­sósa af á­fengi,“ segir hún.

Nánar á vef Fréttablaðsins.