Andrés nefnir eina manninn sem getur unnið Hildi

Almannatengillinn Andrés Jónsson segir að aðeins einn maður geti komið í veg fyrir það að Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, verði borgarstjóri. Til að gera langa sögu stutta er það ekki Eyþór Arnalds, oddviti flokksins í borginni.

Hildur tilkynnti í gær að hún ætlaði að sækjast eftir oddvitasætinu fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í vor. Það stefnir því í baráttu milli hennar og Eyþórs Arnalds um oddvitasætið en Eyþór hafði þegar gefið það út að hann ætlaði sér að sækjast eftir endurnýjuðu umboði.

Eyþór á þó ekki möguleika gegn Hildi ef spádómur Andrésar reynist réttur. Hann segir á Twitter:

„Kalt mat. Eini sem getur unnið Hildi Björns í borginni er Dagur B.“

Andrés bætir við að Hildur hafi valið hárrétta línu til að fá meirihluta borgarbúa á bak við sig. „Eyþór hefur fallið í sömu gryfju og fyrri oddvitar Sjálfstæðisflokksins að tala of mikið inn í basann.“

Kollegi Andrésar, almannatengillinn Örn Úlfar Sævarsson, segir að Hildur sé vissulega öflug en erfiðasta áskorun hennar verði þó kannski að vinna sjálft prófkjörið.