Andrés gefur útspili Bjarna falleinkunn

Almannatengillinn Andrés Jónsson segir að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi gert mikil mistök með því að blanda sér í mál lögreglu og fjölmiðla vegna fréttaflutnings um skæruliðadeild Samherja.

Bjarni skrifaði umdeilda færslu í gær þar sem hann gagnrýndi vinnubrögð fjölmiðla og tók til varna fyrir Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra sem hyggst yfirheyra fjóra blaðamenn vegna umfjöllunar þeirra um skæruliðadeildina.

Í pistli sínum sagði Bjarni meðal annars:

„Eru fjölmiðlamenn of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar? Hvernig getur það talist alvarlegt mál að lögregla óski eftir því að þeir gefi skýrslu?“

Andrés segir að Bjarni hafi gert mistök með því að blanda sér í málið með þessum hætti.

„Færsla Bjarna Ben er mikill pólitískur afleikur. Hans helsti styrkleiki hefur einmitt verið að stilla sig um að gefa okkur of mikla innsýn í sín þrengri sjónarhorn á samfélagið,“ segir hann á Twitter.