Andrea: Stelpurnar þrifu klósettin en strákarnir lögðu stíga – Vinnuskólinn féll í gryfjuna

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, félagsfræðingur og lektor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, hvetur vinnuveitendur til að skoða hvernig taka megi skref í átt að meira jafnrétti og gefa þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði „óhefðbundin“ tækifæri.

Andrea skrifaði athyglisverðan pistil sem birtist á vefnum Akureyri.net á dögunum þar sem hún fjallaði meðal annars um mikilvægi þess að taka vel á móti ungu fólki sem fetar sín fyrstu spor á vinnumarkaði. Í pistli sínum leggur hún sérstaka áherslu á kynjajafnfrétt.

Segir Andrea að vinnuveitendur þurfi að vera meðvitaðir um að gefa öllum kynjum jöfn tækifæri í stað þess að ala á gamaldags og rótgrónum staðalmyndum um áhugasvið og getu kynjanna.

Hún segir að þó að Ísland skori hátt á alþjóðlegum mælikvörðum um kynjajafnrétti þá sé vinnumarkaðurinn kynskiptur; konur vinni gjarnan það sem kallað er hefðbundin kvennastörf og karlar hefðbundin karlastörf. Andrea bendir þó á að konur hafi í meira mæli verið að færa sig í stéttir sem áður voru skipaðar körlum að meirihluta en það gangi hægar að brjóta niður múra hefðbundinna kvennastétta. Þá bendir hún á að karlar séu líklegri til að vera í stjórnunarstöðum og þá sé launamunur kynjanna enn viðvarandi.

„Vinnuveitendur hafa þannig kjörið tækifæri til að koma að slíkum breytingum til dæmis með því að leggja sig fram við að taka vel á móti sumarstarfsfólki og gefa því fjölbreytt tækifæri. Það er afskaplega úrelt að setja stelpurnar í þrif og strákana í viðhald en því miður er það staðreynd víða,“ segir Andrea sem segir að karlafyrirtæki ráði stráka í sumarvinnu og kvennavinnustaðir stelpur. Hún nefnir svo sjálf nærtækt dæmi.

„Meira að segja vinnuskólinn á vegum Akureyrarbæjar fellur í þessa gryfju. Dóttir mín vann á vegum Akureyrarbæjar í Kjarnaskógi síðasta sumar, þar voru stelpurnar látnar sjá alfarið um þrif á almenningssalernunum á meðan strákarnir voru í stígagerð. Afskaplega úrelt en líka mjög mótandi vinnulag og auk þess alls ekki í anda jafnréttistefnu bæjarins,“ segir Andrea sem hvetur alla til að gera betur.

„Vinnuveitendur skipta gríðarlega miklu máli þegar kemur að jafnrétti og því að brjóta upp kynbundnar hugmyndir um vinnumarkaðinn. Ég hvet öll þau sem eru með mannaforráð að velta fyrir sér stöðunni á ykkar vinnustöðum, hvar er tækifæri til breytinga og hvernig má taka skref í átt að meira jafnrétti og gefa fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði „óhefðbundin“ tækifæri. Sumarbyrjun er tilvalin tími til slíks uppbrots á gömlum venjum,“ segir hún meðal annars.