Al­þingis­maður smitaður af CO­VID-19: „Stöndum saman og komum út sterkari“

„Jæja. Það kom að því. Fyrir rúmri viku fór ég í sjálf­skipaða sótt­kví eftir að ég fór að fá hósta. Það kom á daginn í gær eftir prufu á föstu­daginn að ég er búinn að vera með Co­vid-19 smit.“

Þetta segir Smári Mc­Car­ty þing­maður Pírata á Face­book-síðu sinni. Þar greinir hann frá því að hann sé smitaður af Kóróna­veirunni svo­kölluðu. Hann segir enn fremur:

„Ég er þokka­lega hress, ein­kennin mjög væg, hóstinn mest­megnis farinn og hitinn varð aldrei mikill. Önnur ein­kenni koma og fara; en ég er í stuttu máli ó­trú­lega heppinn með hvað þetta virðist vægt. Nú er ég kominn í tveggja vikna ein­angrun, en ég mun reyna að sinna þing­störfum eftir því sem ég get í gegnum fjar­fundi og sím­töl á meðan.

Ég veit ekki hvar ég smitaðist eða hvernig, það verður lík­lega aldrei vitað. Smitrakningar­teymið sendi á mig skjal og gaf mér við­miðunar­dag­setningu eftir sam­tal, og það ætti að vera búið að hafa sam­band við alla sem þurfa að fara í sótt­kví eftir að hafa um­gengist mig. Hvað Al­þingi varðar hafa að­gerðirnar þar til að halda fólki í hæfi­legri fjar­lægð hver frá öðrum verið til þess að mitt smit ætti ekki að hafa teljandi á­hrif á störfin þar. Ekki það, það munu ef­laust vera fleiri eftir því sem á líður.“

Þá kveðst Smári vilja hrósa heilsugæslunni í Miðbæ, smitrakningarteyminu, Almannavörnum og lækninum frá LSH sem tilkynnti honum um niðurstöðuna. Bætir Smári við að allir sem viðkoma heilbrigðiskerfinu séu að vinna þrekvirki þessi misserin. Þá segir Smári einnig:

„Við erum öll í þessu saman. Nú reynir á að við fylgjum reglunum, reynum að minnka smit eins mikið og hægt er, og reynum að komast í gegnum þetta. Stöndum saman og komum út sterkari. Pís!“